145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

stöðugleikaskattur og stöðugleikaframlög.

[11:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er ekki nákvæm lýsing á kynningu málsins að við höfum kynnt stöðugleikaskattinn sem einhverja aðalleið í þessu máli. Þeir sem muna eftir því hvernig atburðarásin var frá því að kynningin fór fram minnast þess eflaust að samstundis komu öll slitabúin og sögðust vilja fara leið stöðugleikaskilyrða, þ.e. lykilkröfuhafar lýstu þessu yfir fyrir hönd einstakra slitabúa. Frá þeim tíma hefur það verið alveg ljóst í mínum huga að við höfum svona frekar verið að gera ráð fyrir því að sú leið yrði ofan á að slitabúin mundu á endanum koma með undanþágubeiðnir og gera grein fyrir því hvernig þau hygðust uppfylla stöðugleikaskilyrðin, sem eru sem sagt stöðugleikaframlag, lengingar í lánum, vegna þess að hér eru miklar kvikar eignir búanna í erlendum gjaldeyri í landinu, og síðan endurgreiðslur á erlendum lánum.

Það er eflaust rétt hjá hv. þingmanni að það er dálítið flókið að fara yfir hvern og einn þátt sem kemur til skoðunar við stöðugleikaframlag. En aðalatriðið er að við erum að leysa undirliggjandi vandamál. Við erum að tryggja að hægt sé að klára nauðasamninga og dreifa eignum búanna til kröfuhafanna án þess að við Íslendingar þurfum að horfa upp á röskun á lífskjörum vegna þess að gengi íslensku krónunnar fellur. Það verður farið yfir það nákvæmlega hvernig hver einasti þáttur í uppgjöri þessara búa mun verða núllstilltur við slíkt nauðasamningsfyrirkomulag þegar kynning fer fram á næstu dögum í þessu efni.

Nú er ég að bíða eftir bréfi frá Seðlabankanum. Mér skilst að öll búin séu búin að skila inn sínum hugmyndum til Seðlabankans. Ég vænti þess að fá, jafnvel í dag eða í síðasta (Forseti hringir.) lagi á morgun, samráðsbréf frá Seðlabankanum sem ég mun á endanum koma með hingað fyrir þingið. Það er sömuleiðis verið að vinna að kynningu. Það mun verða farið mjög nákvæmlega yfir það hvernig við erum að leysa vandann.