145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

stöðugleikaskattur og stöðugleikaframlög.

[11:58]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ástæða þess að ég tel mikilvægt að við ræðum þetta í þinginu er sú að það er gríðarlega mikið undir. Seðlabankastjóri hefur sjálfur sagt að það sé bara eitt skot í byssunni. Við viljum öll vera viss um — öll sem hér erum inni, ekki bara hæstv. ríkisstjórn heldur þingmenn allra flokka — að nægjanlegt púður sé í skotinu þegar því verður hleypt af. Af hverju viljum við það? Jú, af því að við erum að hugsa um hagsmuni almennings og við erum að hugsa um að almenningur losni líka úr höftum.

Hæstv. ráðherra sagði hér áðan að hann ætti von á því að fá mat Seðlabankans á framlögum þannig að ég reikna ekki með að hann geti svarað mér því hvort hann telji að framlögin uppfylli þessi skilyrði. Ég vil þá ítreka það, sem ég sagði hér áðan, að við þurfum að fá þetta mál kynnt nægjanlega fyrir þingi og þjóð því að miklir hagsmunir eru undir. Það þarf að ríkja um þetta eins mikið gagnsæi (Forseti hringir.) og unnt er þannig að við getum öll skilið nákvæmlega hvað liggur hér undir og verið viss um að hér sé verið að taka ákvarðanir fyrir framtíðina.