145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

refsirammi í fíkniefnamálum.

[12:04]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Mér þykir heldur stórt spurt á fimmtudegi með þessari spurningu hv. þingmanns. Ég get ekki staðið hér í dag og lýst afstöðu minni til spurningarinnar eins og þingmaðurinn leggur hana fram. Ég hef hins vegar fylgst töluvert mikið með þeirri umræðu sem verið hefur undanfarið um þennan málaflokk. Ég tók eftir þessari umræðu sem var á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og við þurfum auðvitað að fylgjast með því hér heima hvort þær leiðir sem við veljum til dæmis í refsingum séu að virka og hvaða vandi liggur undir.

Ég held að ýmis rök séu fyrir því að kannabisneysla sé ekki síður heilbrigðis- og félagslegt vandamál. Við þurfum líka að átta okkur á því, þegar við erum að skera úr um það hvort hlutir eigi að vera refsiverðir, hvaða hópar eru þarna undir, hvort þarna sé einungis átt við þá sem eru í neyslu sem sumir mundu þá líta sömu augum og áfengisneyslu eða hvort meira er þar undir því að þegar verið er að refsa fyrir þá hluti þá er líka verið að takast á við það að viðkomandi sé kannski að selja fíkniefni o.s.frv. Þannig að mér þykir þetta flókið álitamál sem er sjálfsagt fyrir okkur að huga að.

Okkur gengur heldur illa að afgreiða frumvarp um áfengi í búðir en þessi umræða er töluvert umfangsmeiri og þyngri og krefst miklu dýpri umræðu en svo að ég geti svarað þessum fyrirspurnum í örstuttum fyrirspurnatíma. Ég held að við eigum að fara rækilega yfir þessi mál og fylgjast náið með því sem er að gerast í nágrannalöndunum, hvort þær refsingar sem eru í þessum málaflokki skili tilætluðum árangri eða hvort þær auki hreinlega á vandann.