145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

refsirammi í fíkniefnamálum.

[12:06]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég hef fullan skilning á því að hæstv. innanríkisráðherra geti ekki svarað afdráttarlaust svo stórum spurningum en engu að síður vil ég taka þetta hér upp og ég held að það þurfi að fara að ræða þessi mál af alvöru og dýpt. Það eru mjög sterkar vísbendingar um, og rannsóknir sýna það, að refsingar í fíkniefnabrotum gera illt verra. Þær hækka verðið á eiturlyfjum á svörtum markaði og gera brotin verri, neysluna verri. Í löndum þar sem afglæpavæðing hefur átt sér stað — ég er ekki mjög hrifinn af því orði, mér finnst það hálfgert orðskrípi — hefur dauðsföllum fækkað, jafnvel um helming eins og í Portúgal.

Ég er farinn að upplifa vaxandi óþol gagnvart því að lesa í blöðum að lögreglan sé að eyða miklum tíma í að eltast við kannabisneyslu sem mér finnst vera sambærileg áfengisneyslu. Það á einfaldlega að búa til lagaumgjörð um þessa neyslu og reyna að glíma við ofneyslu þessara efna með meðferðarúrræðum og innan heilbrigðiskerfisins. (Forseti hringir.) Ég held að það sé mannúðlega leiðin og sú sem leiðir til betri veraldar í þessum efnum, þannig að ég held að við þurfum að fara að skoða þetta alvarlega og skoða þær ákvarðanir sem verið er að taka út um allar koppagrundir um lögleiðingu og afglæpavæðingu þessara efna.