145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

flóttamannamálin.

[12:11]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Það eru mörg grundvallaratriði sem hv. þingmaður kemur inn á.

Í fyrsta lagi held ég að það sé mjög mikilvægt, og vil ítreka það, að tekin var um það prinsippákvörðun í þinginu að meðferð þessara mála skyldi vera á hendi þeirra aðila sem gerst þekkja, þ.e. að við sem erum kannski hérna megin borðsins ræðum ekki einstök mál heldur þurfi þau að fá sinn framgang hjá þar til bærum yfirvöldum. Í því samhengi er ágætt að það komi fram að núna bíða um það bil 250 einstaklingar afgreiðslu eða eru í þessu kerfi okkar sem heitir hælisleitendakerfið. Síðan erum við líka að tala um kvótaflóttamenn og svo erum við líka stundum að ræða kannski beint um innflytjendur. Þetta eru svo ólíkir þættir og við erum pínulítið í umræðunni hér að tala um þetta allt í einu lagi, en það verður að aðskilja þetta.

Þau tilvik sem koma upp í fjölmiðlum eru bara brotabrot af þeim málum sem við eigum við. Mörg þeirra fá bæði já og nei, eins og gengur. Það er mikilvægt að regluverkið um þetta sé nokkuð skýrt vegna þess að það er svo mikilvægt að jafnræðissjónarmiðin séu virk gagnvart fólkinu, að sömu gleraugu séu notuð á alla, það sé ekki hætta á að fólk fái mismunandi meðferð.

Það má segja að tvenns konar stjórnvaldsfyrirmæli liggi fyrir úr innanríkisráðuneytinu þegar kemur að tilteknum löndum, annars vegar frá árinu 2009 og hins vegar frá árinu 2014. Núna erum við að fara aftur yfir þessa þætti, eins og hv. þingmaður nefndi og ég hef sjálf nefnt, til þess að geta grundvallað betur stefnu til lengri tíma. Síðan verður það að koma fram að í gangi er auðvitað endurskoðun á útlendingalöggjöfinni sem sett var á laggirnar í tíð fyrri innanríkisráðherra, þverpólitísk nefnd sem er að ljúka störfum. Þetta er allt enn þá á iði.

Ég held að það sé affarasælast fyrir okkur að um leið og við gerum okkur grein fyrir hvað þetta (Forseti hringir.) er gríðarlega mikill vandi reynum við að strúktúrera dálítið hvernig við förum í hann. Þetta er svo stuttur tími sem við höfum, ég held að við þurfum að gefa okkur lengri tíma í að ræða þessi erfiðu mál.