145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

hælisleitendur.

[12:21]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að vita hvernig á að höndla málin á meðan hið formlega liggur ekki fyrir. Það er sorglegt að um er að ræða fólk sem samfélagið er í raun búið að taka á móti, það er búið að gera það. Börnin voru komin í skóla eftir nokkra rekistefnu, það gekk svolítið á til að koma þeim í skóla. Nú er þeim aftur kippt út úr því örugga umhverfi og á að senda þau til baka.

Ég tek undir það sem hér var sagt um mannúðarsjónarmiðin, þau þurfa að vera yfir og allt um kring. En manni finnst eins og að þegar samfélagið er í sjálfu sér búið að taka á móti fólki þá sé það formið, eins og hér kom fram áðan, sem hefur verið að stöðva þetta.

Hæstv. ráðherra kom aðeins inn á hugtakanotkunina: kvótaflóttamenn, flóttamenn, hælisleitendur. Ég held að hún þvælist töluvert fyrir. Er það rétt að sveitarfélög hafi neitað að taka á móti einhverju af því fólki sem fellur undir þessi hugtök? Er það svo að það hafi ekki fengið hæli vegna þess að ekki var um að ræða kvótaflóttamenn?