145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[13:31]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í hátt í tvö ár hefur verið fjallað um gjaldtöku á ferðamannastöðum og ólögmæti þeirrar gjaldtöku. Með undantekningum höfum við orðið vitni að þegjandi samþykki ríkisstjórnarinnar við augljósum lögbrotum og þá hefur ekki síst afstaða hæstv. ferðamálaráðherra vakið athygli en með framgöngu sinni virðist hún vilja skapa hefðarrétt til eignar á náttúruperlum og nýtingu þeirra í ábataskyni fyrir einkaaðila. Þetta er sambærilegt við það sem gerst hefur varðandi sjávarauðlegðina.

Í 1. gr. fiskveiðilaga segir að sjávarauðlegðin sé sameign íslensku þjóðarinnar. Síðan fengum við kvótakerfi sem opnaði á kaup og sölu á kvóta, á framleigu kvóta. Það er farið að veðsetja kvóta og svo brá við þegar hrófla átti við þessu kerfi að fram stigu lögspekingar, þar á meðal úr Háskóla Íslands, sem héldu því fram að það stæðist ekki að breyta kerfinu vegna þess að skapast hefði hefðarréttur til þessarar eignar. Við munum að þetta gerðist á árinu 2013.

Það er margt sem hefur gerst á þessu sviði frá því fyrst var farið að tala um þessi mál. Ferðamönnum til Íslands hefur fjölgað mjög og þeir hafa fært gríðarlegar tekjur inn í íslenskt þjóðarbú, þannig að hleypur á mörg hundruð milljörðum króna. Þessir fjármunir hafa að nokkru leyti skilað sér inn í hirslur ríkissjóðs í gegnum skattheimtu af ýmsu tagi og inn til sveitarsjóða að einhverju leyti. Þarna eru fjármunir, nauðsynlegir fjármunir, til að ráðast í margvíslega uppbyggingarstarfsemi og varnir fyrir náttúruna í ljósi þessa mikla ágangs.

Við sjáum það gerast núna, eftir að náttúrupassinn fékk þá útreið sem hann fékk, og síðan virðist gistináttagjald og komugjald til landsins ekki hafa fengið náð fyrir augum stjórnvalda, að menn eru að leita leiða til að fara bakdyramegin. Þetta er að gerast á Þingvöllum, þar er í ráði að selja aðgang að þjóðgarðinum. Menn kalla þetta stöðumælagjald. En það er nú þannig að þegar við höldum til Þingvalla á 21. öldinni þá komum við þangað ekki fótgangandi og ekki ríðandi, það var á allt annarri öld, við komum á bílunum okkar og nú á að láta okkur borga fyrir að koma þangað — við sjálf, með fjölskyldur okkar og gesti. Þetta er náttúrlega gjaldtaka líka og væri fróðlegt að heyra álit ferðamálaráðherrans á þessu.

Það eru ekki bara opinberir aðilar sem vildu innheimta fé, það eru einkaaðilarnir. Það er að þeim sem ég beini fyrst og fremst sjónum mínum. Við þekkjum hvað gerðist við Geysi, í Námaskarði og í Kerinu. Þar var farið að rukka og enn er rukkað í Kerinu undir blaktandi þjóðfánanum. Það er búið að reisa þar skúr sem rukkarar hafa komið sér fyrir í og þeir innheimta peninga, hafa peninga af ferðafólki án heimildar. Er þetta mín prívatskoðun? Nei, þetta er engin prívatskoðun mín. Umhverfisstofnun úrskurðaði í júnímánuði árið 2014 að þetta væri ólöglegt. Ég vitna hér í blaðafregnir eftir að úrskurðurinn var birtur. Þar segir á visi.is, með leyfi forseta:

„Gjaldtaka landeigenda við Kerið og önnur svæði sem eru á náttúruminjaskrá stenst ekki lög að mati Umhverfisstofnunar. Þá telur stofnunin ekkert í lögum heimila gjaldtöku á öðrum ferðamannastöðum þótt þeir séu ekki á friðlýstum svæðum eða á náttúruminjaskrá.“

Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir spurði hæstv. umhverfisráðherra hvort þetta stæðist. Svar umhverfisráðherrans, í þeirri ríkisstjórn sem nú situr, er afdráttarlaust, með leyfi forseta:

„Ef tekið er gjald fyrir aðgang að náttúruverndarsvæði án þess að skilyrði 32. gr. séu uppfyllt er sú gjaldtaka óheimil samkvæmt lögum.“

Nú er spurning mín til hæstv. ráðherra: Þorir ráðherrann ekki að fara með þetta mál fyrir dóm af ótta við að hennar málstaður verði undir en málstaður almennings verði ofan á?