145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[13:42]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að taka upp þessa umræðu hér, hún er mjög mikilvæg. Því miður er það þannig að ráðherra ferðamála skilar enn einu sinni auðu í þessu máli. Náttúrupassinn, sem hún lagði til, var versta leiðin og var klúður enda andaðist sú hugmynd í fæðingu. Það er líka vond leið að taka pening beint úr ríkissjóði, eins og verið er að gera núna til að redda ráðherranum frá þessu klúðri.

Mín skoðun og félaga minna í Samfylkingunni er sú að við eigum að útfæra það gjald sem síðasta ríkisstjórn kom á, þ.e. gistináttagjaldið, sem er 100 kr. í dag. Það má útfæra það á betri hátt miðað við reynsluna, en þetta gjald gefur um 300 millj. kr. í ár. Segjum að þetta yrði fært upp í 500 kr. og gæfi á bilinu 1,5–2 milljarða kr. Það eru miklar upphæðir. Gistináttagjald er þekkt leið út um allan heim og kemur ferðamönnum ekki á óvart. Við sjáum það á reikningum þegar við borgum sjálf hótelreikninga. Við í Samfylkingunni erum á þeirri skoðun að skipta eigi þessu gjaldi milli ríkisins og sveitarfélaganna.

Segjum sem svo að sveitarfélögin fengju helming. Hluta af því yrði heimilað að nota til reksturs við ferðaþjónustu og hluta gætu sveitarfélög annaðhvort notað í sinn þátt eða við styrki til annarrar uppbyggingar. Eins og við sjáum hafa framkvæmdaraðilar ekki farið á mikið flug hvað þetta varðar vegna þess að það vantar mótframlag.

Virðulegi forseti. Því er spáð að það komi um 1,3 milljónir ferðamanna til Íslands á þessu ári. Nýleg spá greiningardeildar Arion banka fjallar um 2 milljónir ferðamanna árið 2018. Það er búið að klúðra gjaldtöku á þessu þingi, á þessu ári, og líka á árinu 2016. Því heiti ég á ráðherra ferðamála að koma með tillögu sem hægt er að skapa sem mesta sátt um þannig að við getum byrjað slíka (Forseti hringir.) gjaldtöku með útfærðu gistináttagjaldi á árinu 2017, þ.e. láta ferðaþjónustuaðila vita í tæka tíð.