145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[13:47]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka frummælanda fyrir að vekja máls á því þarfa umræðuefni sem gjaldtaka á ferðamannastöðum er. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að mikil fjölgun ferðamanna kalli á gjaldtöku. Það dugar ekki að beita þeim rökum að ferðamenn skilji svo mikla peninga eftir sig á annan hátt að óþarft sé að rukka fyrir aðgang að náttúruperlum landsins. Á næstu árum þarf að verja miklum fjármunum í að verja okkar helstu ferðamannastaði vegna ágangs sé mark takandi á spám um fjölda ferðamanna. Gjaldtaka er því nauðsynleg.

Ég hef talið og tel að blönduð leið sé farsælust. Hún getur verið blanda af komu- eða brottfarargjöldum hingað til lands, gistináttaskatti og síðan gjaldtöku á einstaka stað, en sú gjaldtaka yrði þá helst að vera tengd einhverri þjónustu sem viðkomandi ferðamaður keypti, til dæmis ef hann nýtti sér þjónustu leiðsögumanns eða annað þess háttar.

Að þessu sögðu þá sé ég ekkert að því að bílastæðagjald eða eitthvað slíkt sé innheimt á Þingvöllum. Slík gjöld eru víða innheimt. Ég sé ekkert að því að það sé gert á Þingvöllum eins og víða annars staðar. Gistináttagjald er rukkað í ótal borgum og bæjum um allan heim og þykir almennt ekki tiltökumál, enda er oftast ekki um slíkar upphæðir að ræða að það skipti máli.

Lággjaldaflugfélög hafa vissulega áhyggjur af komu- eða brottfarargjöldum en ef þau eru lág þá mun það ekki fæla fólk frá landinu. Það er einmitt kosturinn við blönduðu leiðina að ekki er verið að rukka einstaklinga um háar fjárhæðir fyrir fram óháð notkun heldur borgar fólk fyrir veitta þjónustu.

Ég er ekki hrifinn af þeirri gjaldtöku sem var við Geysi og því sem tíðkast hefur við Kerið. Slíkt skaðar ímynd okkar út á við, tel ég. Sýnum skynsemi þegar við stígum næstu skref og skoðum möguleika á blandaðri leið. Við erum ekki þau fyrstu sem finna upp hjólið þegar kemur að gjaldtöku í ferðamennsku.