145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[13:56]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að það er mjög mikilvægt að koma okkur niður á heppilegustu leiðina og skýran ramma utan um gjaldtöku af þeim mikla ferðamannafjölda sem hingað kemur árlega og stefnir í að fjölgi verulega og um leið heppilegustu leiðina til að deila því fjármagni út.

Hv. þm. Kristján Möller nefndi hér áðan að við hefðum lagt til að þeir fjármunir gangi nokkuð jafnt á milli ríkis og sveitarfélaga þannig að sveitarfélögin geti tekið þátt í því sem skiptir kannski mestu máli sem er aðgengi að náttúrusvæðunum sem mest ásóknin er í að skoða og er það vísir að ágætri leið til að útdeila fjármagninu aftur.

Hvernig eigum við að innheimta fjármagnið? Hugmyndin um náttúrupassann féll í grýttan jarðveg og kannski grýttari en margir töldu í upphafi. Ég efast ekkert um að hæstv. ráðherra gangi það eitt til að koma á heppilegu fyrirkomulagi til gjaldtökunnar. Það er mjög gott að geta rætt þessi mál af yfirvegun. Það er mjög mikilvægt að koma okkur niður á leið sem ágæt sátt er um og skilar því sem við viljum fá. Mögulega eru komu- og brottfarargjöld og gistináttaskattur leið að því markmiði. Það verður vonandi skoðað mjög nákvæmlega á næstunni af því að það eru verulegir fjármunir sem þurfa að ganga inn í málaflokkinn og nauðsynlegt að þeir komi í gegnum mikla veltu ferðamanna til landsins.

Gjaldstöðvaleið er erfið. Það kallar á mikinn og óheyrilegan fjölda gjaldstaða. Bent er á að bara á Mývatnssvæðinu þyrftu að vera 11 gjaldstöðvar þar sem eru margir staðir sem ásókn er í að skoða o.s.frv. Einhver innheimta, eins og ég nefndi áðan og hv. þm. Karl Garðarsson nefndi líka, er leið að þessu markmiði og leið hv. þm. Kristjáns Möllers um útdeilinguna held ég að sé nauðsynleg, að sveitarfélögin fái sanngjarna hlutdeild í slíkum tekjum.