145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[13:58]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Allt þetta kjörtímabil og á hinu fyrra líka voru menn sammála um að ráðast þyrfti í uppbyggingu á ferðamannastöðum sem eru undir miklum átroðningi vegna aukins fjölda ferðamanna. Því miður hefur gríðarlega mikill tími á þessu kjörtímabili farið forgörðum vegna þess að menn lögðu í mikið ferðalag til að búa til kerfi sem engin sátt var um. Það var auðvitað meingallað. Hæstv. ráðherra virtist hafa mjög takmarkaða trú á þeirri leið sjálfur, enda hefur sú leið fallið í gleymskunnar dá.

Það er hægt að gera þetta með öðrum hætti. Það er hægt að nálgast þetta á þann hátt sem Nýsjálendingar hafa gert þar sem menn hafa einfaldlega farið í þau fyrirtæki sem eru að fénýta þessa staði og sett upp ákveðna gjaldtöku af þeim. Ég hef flutt tillögu um það, sem felur í sér að hægt er að standa straum af nauðsynlegri uppbyggingu. Það er ekki aðferð til að græða á ferðamannastöðunum, það er aðferð til að varðveita þá. Það er aðferð til að búa til þjónustu. Það er eðlilegt að þau fyrirtæki sem fénýta staðina standi straum af þeim kostnaði og geri samkomulag við heimamenn, í þeim tilfellum sem ég er að leggja til hér sveitarfélögin á svæðinu, sem hafa auðvitað þekkingu á fyrirkomulaginu.

Hvað hefur núverandi ríkisstjórn gert í þessum efnum? Hvernig hefur hún ráðstafað fjármunum í þessa uppbyggingu? Í tvígang með risastórum upphæðum á fjáraukalögum Þannig hefur nú fyrirhyggjan verið í þessu. 300–400 millj. kr. settar í fjáraukalögin til að standa straum af uppbyggingu, engin fyrirhyggja höfð þannig að ekki hefur verið unnt að koma fjármagninu í verkefnin, það hefur ekki verið unnt að gera áætlanir um uppbyggingu og þess vegna er þetta enn í þessum lamasessi. Það verður að segjast eins og er að það er þessari ríkisstjórn að kenna að þetta er eins og það er. Það er vegna þess að menn höfðu ekki fyrirhyggju, höfðu ekki stefnu, höfðu ekki hugmynd um það hvernig þeir ætluðu að leysa þessi mál þegar þeir komu til valda.