145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[14:00]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir það sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði hér áðan. Ég er algerlega sammála málflutningi hans í þessu máli.

Í skýrslu sem var unnin fyrir Ferðamannastofu, samkvæmt beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, er farið ágætlega yfir það hvernig gjaldtöku er háttað víða erlendis á ferðamannastöðum. Þar kemur fram að allmörg lönd innheimta brottfarar- og/eða komugjald á flugfarþega en algengara er að um brottfarargjöld sé að ræða. Framkvæmd og upphæð gjaldsins er misjöfn eftir löndum. Í flestum tilfellum er flugfélögum falið að innheimta gjaldið og er þá innheimt við kaup á flugmiða. Í einstaka tilfellum þarf að greiða gjaldið á viðkomandi flugvelli en þeim tilfellum fer ört fækkandi. Lönd sem hafa komu- eða brottfarargjöld eru til dæmis Bandaríkin, Bretland, Þýskaland, Austurríki og Írland.

Fjölmörg önnur lönd eru líka nefnd og nemur upphæðin nokkrum þúsundum króna. Í Danmörku og Hollandi var lagt á brottfarargjald en fljótlega lagt af aftur vegna erfiðrar samkeppni við mjög nálæga flugvelli í nágrannalöndum. Í skýrslunni sem unnin var fyrir Ferðamannastofu kemur fram að í sumum löndum er krafist aðgangseyris að náttúruperlum, einkum þjóðgörðum og öðrum friðlýstum svæðum. Þótt seldur sé aðgangur að þjóðgarði kemur það ekki í veg fyrir að þar sé einnig greitt fyrir þjónustu sem þar er veitt, til dæmis aðgang að salerni eða bílastæði. Ef gjald er innheimt í gjaldhliði gefur það færi á að veita upplýsingar, koma á framfæri viðvörunum og telja gesti.

Önnur leið er að hafa einhvers konar passa og síðan eftirlit á vettvangi í ætt við náttúrupassann sem var til umræðu hérlendis. Í athugun, sem gerð var snemma á 10. áratug síðustu aldar, kom fram að krafist var aðgangseyris á um helmingi verndaðra svæða í heiminum og það skiptir máli hvert aðgangseyririnn rennur. Rannsókn sem gerð var í Tasmaníu í Ástralíu sýndi að 86% gesta fundust gjöldin vera af hinu góða ef þau rynnu (Forseti hringir.) beint til garðsins sjálfs en aðeins 36% fundust þau jákvæð ef þau rynnu beint í ríkiskassann. (Forseti hringir.) Hvaða leið sem verður farin í þessu máli þá er ljóst að við þurfum að taka til hendinni strax í þessu máli og komast að sameiginlegri niðurstöðu.