145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[14:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég vil vitna í skjal sem var búið til af löngu ferli fyrir fáum árum þar sem þúsundir manna komu að stefnumótun um nýja stjórnarskrá. Þar er kafli um náttúru Íslands og umhverfi, með leyfi forseta:

„Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda.“

Í lok þeirrar greinar:

„Með lögum skal tryggja rétt almennings til að fara um landið í lögmætum tilgangi með virðingu fyrir náttúru og umhverfi.“

Ég held að það hafi komið mjög vel fram í máli nokkurra þingmanna hérna, hv. þm. Karls Garðarssonar, hv. þm. Róberts Marshalls og hv. þm. Ástu Guðrúnar Helgadóttur, að þjónusta er eitthvað sem við teljum sjálfsagt að borga fyrir. Það er augljóst ef við tökum dæmi eins og Hvalfjarðargöng sem mundu kannski ekki flokkast sem náttúruperla en voru ákveðið verkefni sem var lagt í og borgað, greitt gjald fyrir og svo þegar búið er að borga það upp fáum við það aftur.

Það vekur athygli mína að annars vegar er verið að tala um að ríkið eða hið opinbera greiði fyrir aðgang fólks að þessum náttúruperlum og fyrir uppbyggingu og svo er hinn póllinn í hæðina að þetta getur verið gróðastarfsemi fyrir ákveðna aðila. Þetta er vogarafl á milli almannaréttarins og eignarréttarins. Ég set ákveðið spurningarmerki við það hvernig eignarréttur fer á til dæmis sólsetrið á bak við Kirkjufellið eða norðurljósin o.s.frv. Ég tel mjög augljóst að hægt sé að rukka fyrir það að fá ferð eða leiðsögn upp á fjall þar sem menn sjá norðurljósin betur, (Forseti hringir.) en ef menn fara þangað sjálfir sé ég ekki að gáfulegt sé að rukka fyrir það.