145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég á í pínulitlum vandræðum með að átta mig á því nákvæmlega, en miðað við það hvernig hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson og hæstv. ríkisstjórn hafa farið með þingið á þessu kjörtímabili þá velti ég fyrir mér hvort það liggi á annað borð alvara á bak við þetta, þ.e. af hálfu hæstv. utanríkisráðherra.

Mig grunar að dularfullu embættismennirnir hafi sannfært hann um að þetta væri eitthvað sem hefði aldeilis þurft að gera fyrir löngu af hinni eða þessari ástæðunni, af ástæðum sem ég þekki ekki og kann ekki að rekja, enda koma þær hvergi fram í máli meiri hlutans. Mig grunar að einhvern veginn hafi tekist að sannfæra hæstv. utanríkisráðherra um þetta og að hann sjái sér fært að öðlast þarna eitthvert meira vald, ef ekki yfir málaflokknum efnislega þá hugsanlega yfir einhverjum fjárveitingum, sem kann því miður að vera rétt.

Ef fjárveitingin er til utanríkisráðuneytisins en ekki til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands þá sér hæstv. utanríkisráðherra það kannski fyrir sér að auðveldara sé að bregðast við fjárþörf í öðrum málaflokki með því að ganga á þennan, eins og oft þarf að gera í ríkisrekstrinum og gerist í ríkisrekstrinum. Fjárþörf er jú eitt af stóru vandamálunum við rekstur ríkisins og ef menn sjá tækifæri til að hafa fleiri takka á takkaborðinu til að stjórna því hvert fjármagn fer þá hlýtur það að virka freistandi. Mér dettur þetta í hug.

Ég tel að rökin sem nefnd eru í greinargerð frumvarpsins standist alls ekki, að það hljóti að vera önnur rök á bak við, nema hæstv. utanríkisráðherra sé hreinlega að gera gys að þinginu með því að leggja þetta fram, sem mér þykir því miður trúlegt.