145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:46]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þegar hv. þingmaður talaði um það vald sem ráðherrar og Framsóknarflokkurinn virtust vilja taka til sín þá sveif hér um sali hv. varaformaður utanríkismálanefndar, Silja Dögg Gunnarsdóttir. Þá rifja ég það upp, af því hv. þingmaður var að ég hygg staddur á fundi nefndarinnar þegar var verið að ljúka afgreiðslu málsins, að undir forustu þeirrar ágætu framsóknarkonu gerðist það í fyrsta skipti í sögu þingsins að ekki fékkst ráðrúm til þess að fara yfir umsagnir sem gefnar voru um málið. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það en það hef ég aldrei upplifað á minni lífsfæddri ævi áður.

Hv. þingmaður fór vel yfir það með hvaða hætti framlög hafa þróast sem hlutfall af vergri landsframleiðslu og vísaði til áætlunar sem hér var samþykkt 2011. Þá er rétt að rifja það upp að á þeim tíma var lögð fram áætlun sem var síðan breytt af þinginu, hún var framhlaðin, þ.e. þingið vildi auka framlögin hraðar. Þá var hér á dögum þingmaður sem nú er orðinn formaður stjórnmálaflokks og gegnir embætti fjármálaráðherra í dag. Hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson kom sérstaklega í ræðustól þá til þess að lýsa því yfir að hann styddi þetta og teldi þetta vera mjög raunhæfa ályktun. Því nefni ég það vegna þess að hv. þingmaður talaði um að núna værum við að veita sem svaraði 0,21% af vergri landsframleiðslu í þróunarsamvinnu. Það er alveg hárrétt, en það er 4 milljörðum minna en hefði farið í málaflokkinn ef upphaflegi áætlun þingsins sem samþykkt var einróma hefði verið fylgt.

Hvað finnst hv. þingmanni um þetta? Hvað finnst honum um loforð hæstv. utanríkisráðherra í fyrra þegar hlutfallið var 0,23% sem hann sagði að mundi aldrei lækka? Það er lægra núna. (Forseti hringir.) Það er 500 milljónum lægra í ár en hæstv. ráðherra lofaði í fyrra að það yrði.