145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mundi reyndar ekki telja réttindi þingmanna í nefndum, eða í starfi þingsins almennt, til borgararéttinda. Ég tel borgararéttindi vera annað fyrirbæri. Ég skil tenginguna að því leyti að þegar minni hluti er til staðar þarf hann að hafa réttindi í samskiptum sínum við þann sem hefur valdið, sem í þessu tilfelli er meiri hlutinn. Ég skil tenginguna sem hv. þingmaður fer út í með borgararéttindi en borgararéttindi eru eðli málsins samkvæmt eitthvað sem tilheyrir borgaranum, manninum sem sefur á bekknum, ekki þingmönnum í nefnd, til að halda því til haga.

Þetta varðar hins vegar annað prinsipp sem Píratar reyna að telja sér trú um að þeir standi fyrir, sem er upplýstar ákvarðanir. Og upplýstar ákvarðanir á að taka í kjölfar þess að menn geti skoðað öll tilheyrandi gögn og rætt þau efnislega og málefnalega og yfirvegað. Það mistekst stundum hér á þinginu. Hvað þetta mál varðar þá held ég að málið sé aðeins flóknara en nákvæmlega það vegna þess að það rataði inn á seinasta þing og málsmeðhöndlun að sumri. Ég gæti rætt það hér miklu lengur en hef ekki lengri tíma.