145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:53]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hvers vegna á að laga það sem er í góðu lagi? Það er óhætt að spyrja þessarar spurningar þegar við erum að takast á við þetta mál. Rökin sem fram hafa verið færð eru því miður afar léleg að mínu viti og byggja í rauninni á einni skýrslu. Í ljósi þess sem ég endaði á í andsvari áðan vil ég segja það í beinu framhaldi að hæstv. utanríkisráðherra hefur nefnilega brigslað þeirri konu sem gerði þá skýrslu sem ég hef og fleiri vitnað í, Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, um að hún sé pólitískur andstæðingur sinn og þess vegna sé skýrslan með þeim hætti sem hún er, þótt hún hafi verið gerð fyrir hans ráðherratíð. Þess vegna er alveg óhætt að ræða þetta opinskátt eins og það kemur fyrir. Það eru allir breyskir í því en mér hefði þótt eðlilegt að við hefðum tekið meira en bara þá einu skýrslu sem málið byggir á, mál sem kemur hér fram enn og aftur, það byggir sem sagt fyrst og fremst á skýrslu Þóris Guðmundssonar eins og við þekkjum. (Gripið fram í: 190 viðtöl.) Allt annað sem búið var að vinna, það að allir aðrir ráðherrar hafa hafnað þessu eins og hér hefur verið rakið og við höfum rakið mörgum sinnum, allt er það sett til hliðar. Þessi eina skýrsla, þrátt fyrir 190 viðtöl eins og hér er kallað úr sal, er gagnið sem er undir. Allt annað er sett til hliðar og ekki tekið mark á því. Mér þykja það ekki góð vinnubrögð.

Það er gjarnan talað um að hafa sem mest undir þegar teknar eru stórar ákvarðanir. Hér höfum við töluvert mikið af gögnum en hæstv. ráðherra kýs að nota þau ekki. Hann kýs að horfa fram hjá því að það eru ekki bara til gögn sem segja að það eigi að gera þetta, sem er reyndar afar illa rökstutt að mínu mati eða öllu heldur má segja að ekkert komi fram í gögnunum sem segir að Þróunarsamvinnustofnun eins og hún starfar í dag sé ekki hið ágætasta fyrirbæri og geti vaxið og dafnað enn frekar ef að henni er hlúð. Þess vegna byrjaði ég á því að segja: Hvers vegna að laga það sem er nú þegar í góðu lagi?

Ég skil ekki hvers vegna hæstv. utanríkisráðherra vill gera þetta eða núverandi formaður utanríkismálanefndar sem ég óskaði eftir að yrði kallaður hingað í salinn áðan og ég spyr hvort það hafi verið gert. Mér finnst eðlilegt að hér sé einhver til að svara fyrir þetta mál. Þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa ekki gert það fram til þessa og mér finnst ástæða til að þeir rökstyðji það hvers vegna þeir brenna svo fyrir því að þetta mál fari í gegn óbreytt.

Það hefur ekki verið rökstutt hvaða vanda eigi að leysa með þessari breytingu eins og kemur fram í áliti minni hluta utanríkismálanefndar vegna þess að ekki hefur verið bent á það sem er í ólagi. Og þegar svo er þá spyr maður auðvitað: Er bara verið að gera þetta til að gera þetta, til að ráðherrann geti sagt að hann hafi nú lokið eins og einu máli, fyrsti ráðherrann sem lét plata sig? Eins og ég sagði áðan þá hafa mjög margir ráðherrar fengið þetta verkefni af hálfu embættismannakerfisins. Ég sakna þess að heyra ekki í formanni fjárlaganefndar sem talar mikið um embættismannakerfið og hvaða völd það taki sér í hendur, hvort hún andmæli því ekki núna. Þegar maður skoðar söguna er það klárlega þannig að embættismenn utanríkisráðuneytisins virðast standa á bak við það að þetta fyrirkomulag verði að veruleika. Maður getur ekki dregið aðra ályktun þegar sagan liggur fyrir. Hver utanríkisráðherrann á fætur öðrum, sama í hvaða flokki hann hefur staðið, hefur sagt: Nei, við ætlum ekki að gera þetta. Það er frægt dæmið þegar Davíð Oddsson breytti þessu og honum var ekki hlýtt og Sigríður Snævarr sendiherra varð loksins að undirrita málið vegna þess að ráðuneytisstjórinn neitaði því. Þarna hefði ég viljað sjá hv. þingmenn Framsóknarflokksins, sem tala gjarnan um að embættismannakerfið ráði of miklu, stíga fram og tala.

Mér finnst þetta mál snúast um það að hér erum við að tala um fólk í framandi umhverfi, við erum að tala um viðtakendur aðstoðar en mér finnst áherslan í þessu frumvarpi vera fyrst og fremst sú að færa málin inn á við og að ráðuneytið ráði. Hvar er rödd fólksins sem við erum að aðstoða? Hver er hagræðingin fyrir fólkið í samstarfslöndunum ef af þessu verður, sem ég hef því miður miklar áhyggjur af að verði niðurstaðan? Til þess að þróunarsamvinna takist vel þarf hún mikinn tíma, hún þarf undirbúning og síðan auðvitað framkvæmd og svo þurfum við gegnsæi og mat á því hvernig uppskeran er.

Í fyrri ræðum í þessari umræðu og þegar við ræddum þessi mál síðast hafa verið rakin dæmi um skóla Sameinuðu þjóðanna og friðargæsluna sem allt heyrir undir ráðuneytið og það er ekkert mat til staðar. Við höfum engin gögn í höndunum um hvernig það starf hefur gengið, engin tölfræðileg gögn, engar samantektir, alla vega ekkert sem hefur birst okkur.

Þróunarsamvinnustofnun skilar reglubundið yfirliti, segir frá sínum störfum, hvernig þau ganga og gerir það opinbert. Þegar starfið fer inn í ráðuneytið þá er það komið inn í ógagnsæi, það er komið inn í hyldýpið. Það er líka vert að geta þess að Ríkisendurskoðun hefur varað mjög við því að eftirlit og framkvæmd sé á sömu hendi. Það er líka eitt af því sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis segir okkur. Þessu eigum við að breyta. Eftirfylgni, eftirlit og framkvæmd á ekki að vera á sömu hendi en samt ætlar ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins að gera þetta; móta stefnu, framkvæma hana og hafa eftirlit með henni. Ríkisendurskoðun segir að ráðuneytið eigi að móta stefnu samkvæmt leiðsögn Alþingis. Þróunarsamvinnustofnunin á að framkvæma og eftirlitið á svo að vera í höndum ráðuneytisins þar sem eldveggur sé á milli. Þetta eru fyrirmæli Ríkisendurskoðunar. Eigum við bara stundum að taka mark á henni? Bara þegar hentar? Þegar og ef við viljum vita eitthvað um það hvernig málum vindur fram þá erum við ekki trygg. Ríkisendurskoðun getur ekki gert sjálfstæða úttekt á utanríkisráðuneytinu, bara svo fólk átti sig á því um hvað málið snýst. En það getur gert sjálfstæða úttekt á Þróunarsamvinnustofnun Íslands sem hefur, nota bene, komið mjög vel út úr öllum úttektum og er ein af fyrirmyndarstofnunum okkar. Við erum hér að tala um 1,5 milljarða sem renna inn í ógagnsæi utanríkisráðuneytisins og það eru miklir peningar. En fyrst og fremst segi ég enn og aftur: Við eigum að hugsa um viðtakendurna, fólkið, en ekki ráðuneytið.

Ég hef áhyggjur af því, eins og ég sagði áðan og kemur m.a. fram í skýrslu Sigurbjargar og því sem hún hefur látið frá sér fara, að féð verði kannski sett í einhverja allt aðra hluti en þörf er á. Ég tel ekki að við eigum að leggja áherslu á að framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu snúi t.d. sérstaklega að jarðhitaverkefnum. Ég held að fyrirtækin séu sjálfbær um að sinna því. Það er hætta á þessu. Þegar starfsemin er komin inn í ráðuneytið þá höfum við mjög lítið um hana að segja.

Hér áðan voru framlög til þróunarmála aðeins rædd og sumir hafa séð ofsjónum yfir því, m.a. hv. formaður fjárlaganefndar sem eins og okkur rekur kannski minni til var sú eina sem greiddi atkvæði gegn þróunarsamvinnuáætluninni í mars 2013. Við höfum auðvitað ekki staðið við samkomulagið og virðumst ekki ætla að gera það enn, ég hef því miður áhyggjur af því að ríkisstjórnin ætli ekki að standa við það. Ég hef líka miklar áhyggjur af því að það sé lýðræðinu hættulegt að framkvæmdarvaldið taki stofnunina til sín með þeim hætti sem hér er lagt til.

Það kemur fram í áliti minni hlutans, fyrir utan það sem ég hef þegar rakið, að stofnunin hefur margsannað sig með þeim verkefnum sem hún hefur haft á höndum og hafa verið tekin út í óháðum úttektum og eru mjög margvísleg og í mörgum löndum. Það hefði frekar mátt hugsa sér að styrkja stofnunina enn frekar heldur en að draga hana inn undir ráðuneytið með þessum hætti. Það má líka alveg halda því til haga að utanríkisráðuneytið fer nú þegar með 60% af framlögum til málaflokksins en Þróunarsamvinnustofnun um 40% þannig að það er auðvitað eftir einhverju að slægjast.

Hér hefur verið farið yfir það hvað DAC hefur haft fram að færa í þessu. Við vitum að árið 2016 er von á úttekt DAC sem ráðherrann telur sér illfært að bíða eftir, kannski er það vegna þess að hann á von á því að það skili okkur þeim niðurstöðum að honum verði ráðið frá því að gera þetta. DAC segir að með aðild Íslands að þróunarsamvinnunefndinni muni einstök nálgun Íslands og 30 ára reynsla gagnast henni vel. DAC segir líka að stofnanarammi Íslands í málaflokknum búi yfir getunni sem þarf til að ná markmiðum sem við setjum okkur í þróunarsamvinnu. Og þá spyr maður sig: Af hverju þarf að breyta þessu?

Þessi úttekt var gerð í kjölfar þess að Alþingi hafði samþykkt þá hækkun sem við vorum að tala um áðan, framlög til þróunarsamvinnu áttu að aukast hratt og ná 0,7% vergri landsframleiðslu árið 2017. Því miður hefur ekki orðið af þessu og ríkisstjórnin hefur ákveðið að forgangsraða með öðrum hætti en þeim að hjálpa fátæku fólki hér heima og erlendis.

Það er líka vert að hugsa til þess að í greinargerð með frumvarpi ráðherrans er þessi breyting rökstudd með skilvirkni og hagkvæmni og samlegðaráhrifum og talað er um að draga úr óhagræði og tvíverknaði. Samt hafa engin dæmi um slíkt komið fram í umræðunni, þau komu ekki fram hjá ráðherra þegar hann flutti málið áður en það fór til nefndar, þau komu ekki fram hjá hv. formanni utanríkismálanefndar Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í gær. Ef fólk hefur enga sannfæringu fyrir málinu og ekki eru færð nein haldbær rök fyrir því þá er auðvitað áhugavert að heyra hvað hv. þingmönnum meiri hlutans finnst um það og hvort þeir séu sannfærðir um réttmæti þess og hvaða rök það eru sem hafa sannfært þá um að þetta fyrirkomulag verði betra og hvort allt annað en skýrsla Þóris sé eitthvað sem við eigum ekki að hlusta á. Það kemur líka fram í greinargerðinni með frumvarpinu að það verði enginn sparnaður af þessu og ráðuneytið hefur staðfest það. Þegar maður leggur þetta allt saman, þá hlýtur maður að spyrja sig enn og aftur: Hvað er undir?

Það kemur fram í greinargerðinni að það eigi að styrkja tengsl milli þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála og ráðuneytið telji að það sé best gert með því að færa verkefnin inn í ráðuneytið. Í skýrslu Sigurbjargar segir, með leyfi forseta:

„Sameining ÞSSÍ og hinnar marghliða þróunarsamvinnu innan ráðuneytisins myndi veikja faglega stefnumótun í þróunarsamvinnumálum. Slík sameining myndi draga úr möguleikum ráðuneytisins á að koma á innra aðhaldi við ákvarðanatöku og þar með styrkja hina faglegu stefnumótun. Með því að fela sérstakri stofnun eins og ÞSSÍ framkvæmd tvíhliða þróunarsamvinnu má ná fram vissum lykilþáttum í skipulagi sem ætlað er að efla stefnumótun. Í fyrsta lagi má ná fram heildstæðu stjórnunarferli innan stofnunarinnar þar sem lögð er áhersla á faglegan undirbúning og markvissa stjórnun einstakra afmarkaðra viðfangsefna sem fylgt er eftir með innra eftirliti og óháðum úttektum.“

Síðar segir:

„Auðveldara er að koma á eftirliti með starfsemi stofnana sem starfa sjálfstætt utan ráðuneyta.“

Þetta styður Ríkisendurskoðun. En samt ætlar ráðherrann að fara gegn þessu þrátt fyrir álit opinbera stofnana. Þetta snýst ekki bara um álit tveggja aðila, þ.e. annars vegar Þóris Guðmundssonar og hins vegar Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur. Það eru fleiri og þar á meðal ríkisstofnun sem við stólum á að hafi eftirlit með stofnunum okkar sem segja að þetta sé ekki gott. Ég skil ekki hvers vegna þetta er niðurstaða hæstv. ráðherra og ég tel reyndar að hann sé að flytja mál ráðuneytisins.

Hérna var rakið dæmið um Úganda og er rökstutt ágætlega í áliti minni hlutans að smávægilegar uppákomur á sem betur fer að vera hægt að leysa. Það kemur líka fram að þrátt fyrir þau skoðanaskipti sem þar eru tilgreind fylgi starfsmenn stofnunarinnar að sjálfsögðu utanríkisstefnu Íslands.

Virðulegi forseti. Tími minn er að renna út en í áliti minni hlutans er talað um að diplómatískar áherslur gætu farið að blandast inn í Þróunarsamvinnustofnunina, þ.e. framlagsríki geti farið að horfa til eigin hagsmuna og reka hana með annað að leiðarljósi en hagsmuni fátækra ríkja, þ.e. það geti orðið samkrull viðskiptahagsmuna og þróunarsamvinnu þar sem hún er rekin undir sama þaki eins og ég las hér upp áðan. Það er auðvitað hætta á þessu. Það er enginn að segja að þetta gerist, en þetta er hætta og við höfum ekki tækifæri til eftirlits. Alþingi getur vissulega spurt ráðuneytið og kallað eftir svörum en það er ekki formlegt eftirlit eins og við óskum eftir að haft sé með stofnunum okkar. Ríkisendurskoðun sem hefur ráðlagt síðustu 20 árin að framkvæmd og eftirlit sé ekki á sömu hendi er ekki virk í þessu samhengi.

Það kemur fram í minnihlutaálitinu að á fundi nefndarinnar hafi komið fram að ráðuneytin séu of íhaldssöm, það vanti oft meira svigrúm til nýsköpunar og athafnagleði í undirstofnunum þeirra. Þetta er eitt af því sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur getið sér gott orð meðal annarra ríkja, þ.e. fyrir frumkvæði og nýja nálgun í þróunarsamvinnu. Það hlýtur að vera það sem við viljum að sé viðhaft í slíkri samvinnu þar sem svo miklir fjármunir eru undir. Og engin dæmi hafa verið nefnd um það að heil stofnun hafi áður verið lögð niður og færð inn í ráðuneyti. Þetta virðist því fyrst og fremst vera og hefur verið í öll þessi ár aðallega málefni ráðuneytisins.

Það er líka ágætt að minna á það að sum lönd hafa verið að færa sig til baka úr því formi sem hér stefnir allt í. Það er rakið í nefndaráliti minni hlutans að Ítalir breyttu fyrirkomulagi sínu og settu á fót sérstaka stofnun í staðinn fyrir að vera með starfsemina í ráðuneytinu og tekin voru fleiri dæmi á fundum nefndarinnar sem studdu þetta. Í umsögn prófessors Jónínu Einarsdóttur er komist að sömu niðurstöðu og Davíð Oddsson á sínum tíma, að Þróunarsamvinnustofnun verði ekki lögð niður heldur verði verksvið hennar útvíkkað og stofnuninni falið að annast áfram í umboði ráðherra bæði tvíhliða og marghliða þróunarsamvinnu Íslands. Að þessu ættum við að stefna fyrst og fremst, með fólkið á vettvangi og viðtakendurna sem þiggja aðstoðina í forgrunni en ekki Ísland eða ráðherra hverju sinni.