145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:55]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ekki síst fyrir að vekja athygli á því að sá háttur sem utanríkisráðherra leggur hér til að verði á þróunarsamvinnu okkar, þ.e. að loka Þróunarsamvinnustofnun og færa það allt inn í ráðuneytið er ekki eina tillaga Þóris Guðmundssonar í merktri skýrslu hans, alls ekki. Hann leggur fram þrjár tillögur. Mér finnst skipta mjög miklu máli að það komi fram.

Mér fannst eitthvað ýjað að því hér áðan að gagnrýni okkar sem erum á móti þessari leið sé gagnrýni á Þóri Guðmundsson. Ég segi nú bara: Hvers lags eiginlega er þetta að ýja að svona hlutum? Við vitum það mætavel — og af því að þingmaður sagði hér áðan: Ég þekki Þóri Guðmundsson, segi ég: Ég þekki Þóri Guðmundsson að góðu einu og það á ekki að gerast hér í þingsal að ýjað sé svona að hlutunum.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann: Af hverju liggur hæstv. utanríkisráðherra svona mikið á að gera þetta? Af hverju er þetta vilji embættismanna utanríkisráðuneytisins? Ég ætla bara að leyfa mér að segja: Ég held að það sé bara til að fjölga sendiherrastöðum. Hver er skoðun hv. þingmanns á því?