145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:40]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er hárrétt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, það virðist ekki vera mikil sannfæring fyrir málinu. Hún kemur ekki fram í frumvarpinu sjálfu. Það eru ekki færð fram sannfærandi og góð rök fyrir því hvers vegna eigi að leggja Þróunarsamvinnustofnunina niður og hvers vegna við ættum að láta okkur það til hugar koma að samþykkja þetta lagafrumvarp. Það er vont. Ég hef ekki fundið einn jákvæðan tón í þeim umsögnum sem fylgja málinu, þ.e. umsögnum sem hefur verið skilað inn til þingsins varðandi þetta mál, til utanríkismálanefndar, þar sem er hvatt til þess að frumvarpið verði samþykkt.

Lagafrumvarp sem felur ekki í sér skýr markmið með því að leggja niður stofnanir, eins og í þessu tilfelli, lagafrumvarp sem fær enga jákvæða umsögn, sem enginn mælir með að verði samþykkt er ekki aðeins vont lagafrumvarp heldur lagafrumvarp sem á (Forseti hringir.) alls ekki að samþykkja og helst ekki að vera að ræða á Alþingi.