145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:41]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er þannig með þetta mál að því meira sem um það er fjallað þeim mun óskiljanlegra verður það. Hv. þm. Björn Valur Gíslason fór í ræðu sinni yfir þætti málsins og reyndi að átta sig á því af hverju í ósköpunum verið væri að leggja það fram. Mér fannst hann komast að þeirri niðurstöðu í ræðunni að ekki væri hægt að finna neina ástæðu fyrir því. Allir sem sendu inn umsóknir eru á móti málinu, nema kannski hugsanlega Rauði krossinn. Þeir fóru í andsvörum yfir þetta sama mál og stóru spurninguna sem er af hverju þetta frumvarp er lagt fram. Það er alveg ómögulegt að finna annað svar við því en að utanríkisráðherra hafi væntanlega á fyrstu dögum sínum í starfi látið embættismenn plata sig og eigi síðan erfitt með að snúa sig út úr því. Hann ætlar því að láta verða af því að leggja niður þessa stofnun sem alls staðar fær hrós. Það sem verra er, virðulegi forseti, er að þingmenn ríkisstjórnarflokkanna ætla að styðja hann í því en þeir gera samt ekki svo lítið að koma hingað og vera við umræðuna. Ég bendi á það einu sinni enn að formaður utanríkismálanefndar sér ekki ástæðu til að vera við þessa umræðu.

Mig langar til að spyrja þingmanninn: Nú verður stofnunin lögð niður og hvað? Ef fólk vildi laga það þegar þessi vonda ríkisstjórn er farin frá, er þetta þá atriði sem er auðvelt að laga? Er það auðvelt og virkar það að leggja niður stofnun einn daginn og svo kemur fólk og reisir hana við hinn daginn? Þetta er miklu alvarlegra (Forseti hringir.) en svo að þetta verði auðveldlega lagað.