145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:44]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Þetta er hárrétt hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, ef þetta lagafrumvarp verður samþykkt á annað borð verður Þróunarsamvinnustofnun lögð niður og færð undir ráðuneytið. Eins og ég fór yfir áðan glatast mikil þekking og mikil færni hjá starfsmönnum innan stofnunarinnar við það eitt að leggja stofnunin niður og dreifa starfsmönnum út um ráðuneytið, enda er það ekki tryggt í frumvarpinu með neinum hætti, þvert á móti má færa rök fyrir því að gert sé ráð fyrir því í frumvarpinu að starfsmenn fái ekki starf sambærilegt því sem þeir sinna í dag. Það er talað mjög óljóst um starfsmannamál í frumvarpinu. Það verður líklega mjög auðvelt að færa rök fyrir því að það væri vitlaust — eftir að búið er að leggja stofnunina niður, eftir að búið er að henda henni í burtu og dreifa starfseminni inn í ráðuneyti beint undir pólitískan ráðherra — og beinlínis rangt að ætla að fara að rífa það allt upp að nýju. Þessa vegna er málið mjög alvarlegt og mun hafa alvarlegar afleiðingar lengra inn í framtíðina.

Það er athyglisvert sem kemur fram í umsögnum um málið sem meðal annars er vitnað í í nefndarálitinu þegar verið er að fjalla um hugsanlegan ágreining á milli Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og utanríkisráðuneytis. Það segir að eina dæmið sem nefnt hafi verið af hálfu utanríkisráðuneytis hafi verið að tillögur um orðalag varðandi samkynhneigð í Úganda hefðu þurft að fara nokkrum sinnum á milli ráðuneytis og umdæmisskrifstofu áður en það var slípað til niðurstöðu. (Forseti hringir.) Þetta er ekki næg ástæða til að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun.