145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:49]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Eftir að hafa fylgst með þessu máli og ekki síst ræðu hv. þingmanns þá sýnist mér að þetta sé einungis gert til þess að auka miðstýringu. Þarna er bara verið að auka pólitíska miðstýringu. Þarna er verið að hverfa frá stofnanakerfi þar sem fagmönnum er gefinn kostur á því að vinna vinnuna sína án þess að vera með einhverja pólitíska putta ofan í grautnum alla daga og greinilega verið að fara til baka til gamla höfðingjasamfélagsins þar sem höfðinginn drottnaði yfir sínum. Mér finnst líka mjög áhugavert að heyra að þetta hafi aldrei verið gert áður, að stofnun hafi verið færð í heilu lagi undir ráðuneyti vegna einhverrar geðþóttaákvörðunar að því er virðist. Sömuleiðis voru áhugaverð varnaðarorð hv. þingmanns um að það væri kjörið tækifæri til þess að auka spillingu að færa stofnunina undir ráðherra.

Hér hefur líka verið mikið rætt um orð Davíðs Oddssonar þegar kemur að Þróunarsamvinnustofnuninni og hv. þingmaður minntist meðal annars á það sem kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að við brugðumst, að eftirlitshlutverk Alþingis brást. Þá langar mig til þess að minnast orða Davíðs Oddssonar sem koma fram í rannsóknarskýrslu Alþingis um að framkvæmdarvaldið hafi verið svo sterkt á þeim tíma þegar einkavæðing bankanna fór fram. Er framkvæmdarvaldið í þessu máli að gera sig of sterkt? Er framkvæmdarvaldið bara að fara gegn vilja þingsins, gegn því sem eðlilegt þykir? Er þetta kannski lýsandi fyrir þetta gamla íslenska höfðingjasamfélagið sem við erum að reyna að komast í burtu frá?