145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

málefni Ríkisútvarpsins.

[15:25]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður þarf ekkert að minna mig á uppruna Ríkisútvarpsins. Það var ríkisstjórn Framsóknarflokksins sem stofnaði Ríkisútvarpið árið 1930 til þess að vera vettvangur lýðræðislegrar umræðu og menningar í landinu. Ég er hins vegar ekki sammála hv. þingmanni um að friða eigi Ríkisútvarpið með þeim hætti að það eigi að standa alltaf alla tíð nákvæmlega eins og það er núna. Ríkisútvarpið vegna eðlis þess rekstrar sem þar fer fram þarf að geta lagað sig að breytingum í samfélaginu, í tækni o.s.frv. Það þarf að hafa mikla aðlögunarhæfni og geta metið stöðuna hverju sinni og brugðist við henni. Þess vegna er það fagnaðarefni, eins og ég gat um áðan, að hæstv. menntamálaráðherra skuli hafa haft frumkvæði að því að meta stöðu fyrirtækisins. Eitt af því sem verður væntanlega metið í framhaldinu er með hvaða hætti best er að standa að rekstri stofnunarinnar, hvort ohf.-fyrirkomulagið (Forseti hringir.) hafi reynst farsæl tilhögun eða hvort annað fyrirkomulag sé betra, (Forseti hringir.) og inn í það hljóta menn að taka þætti eins og þá sem hv. þingmaður spurði um.