145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

leki trúnaðarupplýsinga á LSH.

[15:28]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu aldrei í lagi þegar trúnaðarupplýsingum er lekið. Það er verklag sem enginn vill sjá en ég held að það sé ekkert í mannlegu valdi sem geti komið í veg fyrir slík slys ef einbeittur brotavilji er til staðar. Það er eitthvað sem við eigum alltaf á hættu að geti gerst.

Ég tek fram að stjórnendur spítalans hafa lagt áherslu á að verið sé að rannsaka þetta tiltekna mál og þegar niðurstöður þeirrar rannsóknar liggi fyrir muni þeir taka ákvarðanir á grundvelli þeirra niðurstaðna sem þar koma fram.

Að sjálfsögðu er rík áhersla lögð á trúnaðarskyldu heilbrigðisstarfsmanna út í gegnum allt kerfið og að sjálfsögðu mun ég eiga orðastað við forstjóra spítalans vegna þessa tiltekna máls eins og um mörg önnur mál sem inn á mitt borð koma vegna umsýslu með málefni Landspítala – háskólasjúkrahúss.

Af þessu tilefni vil ég undirstrika og ítreka að meginreglan og allsherjarreglan á að vera sú að trúnaðarupplýsingum sé ekki lekið út fyrir þann vörslustað sem þeim er ætlað að liggja í fullum trúnaði við skjólstæðinga. En ég ítreka að ég þekki ekki mikið til þessa máls en bíð eftir því að eiga orðastað við stjórnendur spítalans og vænti þess að sú niðurstaða sem þeir munu komast að, á grundvelli rannsóknar sinnar á málinu, verði kynnt mér og ráðuneytinu.