145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

stöðugleikaframlag slitabúa föllnu bankanna.

[15:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er með ólíkindum að menn láti eins og ekki liggi fyrir þinginu upplýsingar um þetta mál. Fyrir liggur 25 bls. greinargerð frá Seðlabankanum og síðan sérstök kynning upp á 80 bls. Vandlega hefur verið farið yfir þetta mál með efnahags- og viðskiptanefnd þannig að það er algerlega úr lausu lofti gripið að það skorti upplýsingar.

Þegar vísað er í nauðasamninga þá er það grundvallarmisskilningur hjá hv. þingmanni að það séu samningar bankanna við ríkið. Nei, nauðasamningar eru þeir samningar sem kröfuhafarnir ætla að koma sér saman um sín í milli að staðfesta, leggja fyrir héraðsdóm til að forða því að bankarnir verði gerðir upp með gjaldþroti. Þeir ætla að fara leið nauðasamnings sín í milli til að ákveða með hvaða hætti þeim eignum sem er að finna í slitabúunum verði skipt þeirra í milli.

Það er ágætt fyrir hv. þingmann að fara að átta sig á því að þegar eignir eru framseldar ríkinu, eins og til stendur að gera með stöðugleikaframlaginu, þá skiptir í sjálfu sér endanlegt verðmat minna máli vegna þess að við erum að leitast við að greiðslujafnaðarhlutleysa búin. Eftir því sem eignirnar verða meiri, þeim mun meiri hefði vandinn verið. Það er gott að þessar eignir séu einfaldlega framseldar. Svo leiðir tíminn það í ljós nákvæmlega hvers virði þær verða hver fyrir sig.