145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

framkvæmd laga um verndarsvæði í byggð.

[15:45]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég er að reyna að átta mig þar sem ég heyrði orðið friðlýsing og friðun svolítið oft. Ég verð að segja að varðandi alla framtíðaruppbyggingu, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, finnst mér mjög vont ef málum er þannig háttað að þau eru auðmisskilin af mörgum og ég verð að vera með í þeim hópi vegna þess að ég stóð í þeirri trú að verið væri að einhverjum hluta að vinna eftir þeim lögum sem samþykkt voru í fyrravor.

En það breytir ekki því að mig langar að fá skýrara svar frá forsætisráðherra hvað varðar þessa skyndifriðun eða friðlýsingu, eða hvað hann vill kalla þetta, hvort það hafi verið nægilega tryggt að hlutaðeigandi aðilar hafi verið hafðir með í ráðum. Svo vil ég fá að vita af hverju forsætisráðherra tók ekki þá ákvörðun sjálfur að staðfesta þessa skyndifriðun.