145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

framkvæmd laga um verndarsvæði í byggð.

[15:46]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé ekkert ruglingslegt með verndarsvæði í byggð. Ég veit ekki hver fór að blanda lögum um verndarsvæði í byggð inn í þetta en það var ekki gert af hálfu ráðuneytisins og ekki af hálfu Minjastofnunar. Hlutverk þeirra er annað og liggur skýrt fyrir, þannig að þetta er ekkert sem á að þurfa að valda misskilningi.

Hvað varðar hins vegar framtíðaruppbyggingu í Reykjavík, af því að hv. þingmaður nefndi það sérstaklega, er auðvitað mjög mikilvægt að núna á þeim þenslutímum sem eru orðnir hér í byggingarframkvæmdum miðsvæðis í Reykjavík þá fari menn ekki algerlega fram úr sér og fórni menningarverðmætum fyrir eitthvað sem kann að virðast mikils virði á pappírnum til skamms tíma en reynist svo vera til tjóns, þannig að sérstaklega við núverandi aðstæður held ég að mikilvægt sé að við höfum lög til að vernda söguna og menninguna.

En varðandi spurninguna hvers vegna umhverfisráðherra hefði friðlýst garðinn, hvers vegna ég hefði sagt mig frá málinu, þá var það vegna þess (Forseti hringir.) að ég taldi mikilvægt að umræða um þetta mál snerist ekki um aukahluti eins og það hvort ég væri vanhæfur, sem var ekki, ef menn hefðu reynt að fara með umræðuna í þá átt, þannig að það var bara best að vera laus við það.