145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

móttaka flóttamanna.

[15:47]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og oft hefur verið rætt hér að undanförnu í þessum þingsal stendur Evrópa nú frammi fyrir meiri straumi flóttamanna en nokkru sinni frá því í síðari heimsstyrjöld. Þar fyrir utan eru tugmilljónir manna á flótta í nágrannalöndum þeirra svæða sem fólk er að flýja.

Í upphafi þingvetrar lögðum við, þingmenn Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar, fram þingsályktunartillögu um að Ísland tæki á móti að minnsta kosti 500 flóttamönnum á næstu tveimur árum. Ríkisstjórnin kom svo með tilkynningu í september um að 2 milljarða ætti að setja í þessi mál, málefni flóttamanna, á árunum 2015 og 2016. Það var líka skýrt tekið fram þá að ekki ætti að nefna sérstakar fjöldatölur.

Nú hefur komið á daginn að í ár á að taka á móti 55 kvótaflóttamönnum. Það er mjög ánægjulegt að það fólk sé að koma hingað til landsins en það veldur miklum áhyggjum að það séu ekki fleiri sem við ætlum að taka á móti nú þegar í ljósi þess að í októbermánuði einum flúðu 218 þús. manns yfir Miðjarðarhafið og eru nú orðnir 774 þús. það sem af er ári.

Í fjáraukalögum kemur fram að ráðstafa á 825 millj. kr. af þessum 2 milljörðum í málefnið á þessu ári. Það eru 250 millj. kr. í stuðning við alþjóðastofnanir og hjálparsamtök, sem er jákvætt. Það á eingöngu að setja 75 millj. kr. í móttöku flóttafólks sem eru gríðarleg vonbrigði, en 450 millj. kr. eiga að fara í að bregðast við fjölda hælisleitenda. Þetta var þróun frá fyrri árum og þessi hækkun var fyrirséð og ég tel óeðlilegt að hún reiknist inn í þessa 2 milljarða.

Spurning mín til hæstv. forsætisráðherra er: Er það virkilega svo að við ætlum, á þessu mikla og erfiða flóttamannaári, eingöngu að taka á móti 55 kvótaflóttamönnum?