145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

atvinnuuppbygging í Austur-Húnavatnssýslu.

234. mál
[15:58]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda var samþykkt ályktun á Alþingi 15. janúar 2014 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma á samstilltu átaki stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa á Norðurlandi vestra með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun. Markmiðið með átakinu er að efla samkeppnishæfni svæðisins og undirbúa það fyrir þá uppbyggingu sem fylgir orkunýtingu Blönduvirkjunar og jafnframt vinna að markaðssetningu svæðisins sem iðnaðarkosts, svo sem fyrir gagnaver.“

Á grundvelli þessarar ályktunar skipaði ég verkefnisstjórn með fulltrúum sveitarfélaganna fjögurra í Austur-Húnavatnssýslu. Það voru þau Arnar Þór Sævarsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar, Adolf H. Berndsen, oddviti Sveitarfélagsins Skagastrandar, Dagný Rósa Úlfarsdóttir, varaoddviti Skagabyggðar og Sigrún Hauksdóttir, varaoddviti Húnavatnshrepps. Með þeim starfaði yfirverkfræðingur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Sveinn Þorgrímsson.

Segja má að fyrri hluta þeirrar vinnu hafi lokið nú á vormánuðum með ítarlegu mati og greinargerð sem gefur góða mynd af stöðu atvinnumála og mannlífs í Austur-Húnavatnssýslu, tengsl þess við raforkuframleiðslu í héraðinu, og greinir nokkrar áhugaverðar leiðir til að efla atvinnulífið og styrkja byggðina. Sú greinargerð hefur fengið ágætisumfjöllun meðal heimamanna og virðist vera góður samhugur um niðurstöður hennar heima í héraði.

Síðari hluti vinnunnar sem nú er að hefjast snýr að markaðssetningu svæðisins sem iðnaðarkosts.

Meginniðurstaða greinargerðarinnar er að fyrirhuguð stækkun Blönduvirkjunar skapar góðar forsendur fyrir nýtingu orku frá virkjuninni í þágu atvinnuuppbyggingar í Austur-Húnavatnssýslu. Ég verð að taka það skýrt fram að það er niðurstaða starfshópsins sem ég rek hér og ég ítreka að það er ekki þeirrar sem hér stendur að ákveða varðandi rafmagnsnotkun frá einstaka virkjunum eða semja um verð eða ákveða til hvaða verkefna raforkan er veitt. Það er á hendi raforkufyrirtækisins, Landsvirkjunar í þessu tilfelli. En þarna er litið til þess að á veituleiðinni frá Blöndulóni eru nú fyrirhugaðar þrjár virkjanir með samtals 31 megavatti í uppsettu afli. Að auki hefur komið til tals hjá Landsvirkjun að reisa vindorkugarð við Kolkuhól, sem er nærri útrennsli Blöndulóns. Vindorka er nú orðin raunhæfur kostur með hækkandi orkuverði auk þess sem vindorka hefur jákvæð samlegðaráhrif með vatnsafli. Sennilega gæti vindorkugarðurinn lagt til meiri orku en fæst með skurðvirkjununum.

Í greinargerðinni eru metnir nokkrir kostir til eflingar atvinnulífs. Meðal annars er bent á að staðsetning gagnavers í Austur-Húnavatnssýslu sé álitlegur kostur. Sama er að segja um framleiðslu lífdísils úr hliðarafurðum afurðastöðvanna, aðallega dýrafitu, en framleiðsla lífdísils hentar vel sem viðbót við þá starfsemi sem fyrir er í héraðinu og nálægð við hráefni styður vel við hugmyndina. Þá er einnig greint frá hugmyndum heimamanna sem kunngerðar hafa verið í fjölmiðlum um byggingu álvers í landi Hafursstaða sem er skammt sunnan Skagastrandar.

Í hnotskurn má segja að greinargerð verkefnisstjórnarinnar hverfist um hugmyndir sem skapað gætu ný störf. Sóknarfærin felast meðal annars í eflingu smáiðnaðar og félagsþjónustu auk þess sem í rannsóknar- og þekkingarsetrum héraðsins felast sóknarmöguleikar, til dæmis á sviði lífríkis sjávarins, textíls, strandamenningar og laxveiðihefðar héraðsins. Við það er að bæta að nýverið sendu heimamenn mér erindi með ósk um að starfsemi verkefnisstjórnarinnar verði haldið áfram og að unnið verði áfram að síðari hluta verkefnisins. Í upphafi var gert ráð fyrir að verkefnisstjórnin lyki störfum í september. Mér er ljúft að verða við þeirri beiðni heimamanna og bíð eftir að fá upplýsingar um verkefni og tímasetningar þeirra verkáfanga sem fram undan eru og reikna fastlega með að áhersla verði fyrst og fremst á framkvæmd valinna hugmynda úr framangreindri greinargerð, meðal annars um markaðssetningu svæðisins fyrir nýiðnað.