145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

atvinnuuppbygging í Austur-Húnavatnssýslu.

234. mál
[16:03]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er vissulega ástæða til að hafa áhyggjur af atvinnuástandi á Norðvesturlandi. Þar hefur störfum fækkað og ungt fólk hefur ekki fundið vinnu við sitt hæfi. Við þurfum að horfa til margra hluta í þeim efnum. Sú tillaga sem hér um ræðir um að reyna að nýta sem best orkuna á þessu svæði sem kemur frá Blöndu, var samþykkt af okkur öllum þingmönnum kjördæmisins. Maður spyr sig til hvers hún leiðir, hvað kemur út úr henni. Mér finnst umræðan vera farin að hverfast ansi mikið um eitthvað allt annað en lagt var upp með, en þar var verið að vísa til gagnavers.

Nú er rætt um niðurstöðu verkefnahópsins sem hæstv. ráðherra vísar til, en þar er álver komið inn í myndina, sem er ekki það sem ég skrifaði upp á þegar ég samþykkti tillöguna. Mér finnst að við þurfum að hafa það í huga sem kom út úr nýlegri könnun, að ungt fólk á Norðvesturlandi, á Austurlandi og á norðausturhorninu horfir ekki (Forseti hringir.) til stóriðju þegar það horfir til atvinnu til framtíðar, heldur frekar (Forseti hringir.) til ferðaþjónustu. Við þurfum að hafa það í huga í þessum efnum.