145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

áfengis- og tóbaksneysla.

217. mál
[16:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jóhanna María Sigmundsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir tækifærið til þess að taka til máls um fyrirspurn mína. Það hefur ekki verið lítið rætt um áfengi í þessum ræðustól síðastliðinn mánuðinn, en í ársbyrjun 2014 var lögð fram stefna íslenskra stjórnvalda um áfengis- og vímuefnavarnir. Við megum ekki gleyma því að á sama tíma hefur Ísland skuldbundið sig til að vinna að samnorrænni stefnu í þeim málum. Í því samhengi vil ég spyrja ráðherrann út í nokkur markmið sem fram koma í sameiginlegri stefnu Norðurlandanna og fá vitneskju um það hvar Ísland stendur þegar kemur að þeim markmiðum sem þar eru lögð fram.

Því vil ég, virðulegi forseti, spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út í samstarfið á Norðurlöndunum og hvernig honum hefur miðað í því. Hefur ráðherrann stuðlað að því eða haft áætlun um að efla gagnreyndar rannsóknir á áfengis- og tóbaksneyslu, þar með talið ólæknandi sjúkdómum, krabbameini og lífsstílssjúkdómum af völdum neyslunnar, eða stuðlað að því eða haft áætlun um að efla gagnreyndar rannsóknir á börnum og ungmennum sem alast upp hjá einum eða fleiri umönnunaraðilum sem eiga við alvarlega áfengismisnotkun að stríða? Í því samhengi vil ég benda á að Norðurlandaráð hefur upp á síðkastið verið með stefnu um það að kanna síðbúin áhrif á einstaklinga sem hafa orðið fyrir skaða í æsku. Og hefur ráðherrann stuðlað að því eða haft áætlun um að efla gagnreyndar aðgerðir til að draga úr áfengisneyslu og skaðlegum áhrifum áfengis?

Það væri fróðlegt í þessu samhengi að heyra hugmyndir hans til að fylgja eftir stefnu Norðurlandanna og hversu langt Ísland er komið í því að uppfylla þau skilyrði sem við bundum okkur til að framfylgja hvað varðar markmiðin.