145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

áfengis- og tóbaksneysla.

217. mál
[16:18]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda spurningarnar. Það er alltaf gott að ræða forvarnamál. Við höfum verið að tala mikið um afglæpavæðingu fíkniefna og þess vegna er vert að snúa sér að áfenginu, sem veldur ekki minna böli en fíkniefni. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra talað um að spurning númer tvö, sem ég hef mikinn áhuga á, heyrði undir félags- og húsnæðismálaráðherra. Ég geri ráð fyrir því að lýðheilsustefnan okkar nái þvert yfir ráðuneyti og þess vegna sé þetta á einn eða annan hátt þar undir. Ég kannast við Rannsóknir og greiningu, þ.e. þá rannsókn sem gerð er í grunnskólum reglulega og er af hinu góða og heldur svolítið utan um þetta.

Varðandi frumvarpið sem við eigum eftir að taka hér inn eina ferðina enn og ræða, brennivín í búðir, þá er eitt gott í því. Það er að mínu mati einungis eitt sem gæti staðið alveg sérstaklega og þyrfti ekki að vera þar og það er ákveðið gjald sem á að renna til forvarna. Mér finnst að við ættum að sjá sóma okkar í því að ákveða að gjaldið verði eins hátt eins og þar er lagt til óháð því hvort áfengi fer í verslanir eða ekki.