145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

greining og meðferð barna með ADHD.

278. mál
[16:28]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni þær fyrirspurnir sem hann hefur beint til mín um þau efni sem hann gerði góð skil í ræðu sinni áðan og lúta í rauninni að því hvaða áform ég hafi uppi um að bæta aðgengi barna að greiningu á ADHD. Því er til að svara, eins og hv. þingmaður nefndi, að ég hef ákveðið að auka fjármuni til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til að fjölga greiningum hjá Þroska- og hegðunarstöðinni um allt að 200 á þessu og næsta ári. Við erum í dag að framkvæma á vegum Þroska- og hegðunarstöðvarinnar um 320 greiningar á ári þannig að þetta verður töluverð viðbót. Ég geri mér góðar vonir um að við þessa viðbót styttist biðin það mikið að börn eigi ekki að þurfa að bíða lengi eftir greiningu, þ.e. ekki lengri tíma en eðlilegt geti talist. Í því sambandi á ég við út frá almennu skipulagi þeirrar starfsemi og innan þeirra marka sem leiðbeiningar um hana gefa tilefni til.

Ég hef sömuleiðis væntingar um að aðgerð sem er í drögum að tillögu að geðheilbrigðisstefnunni, um styrkingu á göngudeild Barna- og unglingageðdeildar, verði samþykkt. Þá yrði hægt að vinna niður bið eftir þjónustu BUGL, en þangað koma líka börn með ADHD, og hluta af flóknari vanda um leið. Þessi tillaga hefur að því er ég best veit ekki komið fyrir sjónir hv. þingmanns vegna þess að við erum enn að vinna með geðheilbrigðisstefnuna.

Varðandi síðari spurningu hv. þingmanns þá er ADHD, eins og ég nefndi áðan, hluti af vanda barna sem glíma við geðraskanir og styrking BUGL mun því gera meðferð fyrir þau börn aðgengilegri. Varðandi önnur börn hefur landlæknir sett fram leiðbeiningar um meðferð. Lögð er áhersla á að skólar og foreldrar grípi til aðferða athyglismótunar. Foreldrar þurfa því fræðslu og Þroska- og hegðunarstöðin er með námskeið fyrir þá um uppeldi barna með ADHD. Sú stöð er líka með námskeið fyrir börn með ADHD. Lyfjameðferð er notuð þegar annað skilar ekki árangri. Það bendir ekkert til þess að börn sem þurfa á lyfjum að halda fái þau ekki í dag.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er gert ráð fyrir því að við fjölgum sálfræðingum í heilsugæslunni. Í drögum að tillögu til þingsályktunar um geðheilbrigðisstefnu, sem mér heyrist margir bíða eftir að komi fram og ég vænti þess að gæti hugsanlega orðið í þessari viku, er tillaga um að fjölga sálfræðingum í heilsugæslunni jafnt og þétt til ársins 2020. Sú aðgerð, ef hún gengur eftir, mun að sjálfsögðu bæta aðgengi að þjónustu sálfræðinga fyrir alla landsmenn og þar með talið börn.

Í drögum að geðheilbrigðisstefnu eru sömuleiðis tillögur um aukinn stuðning við barnafjölskyldur og tillögur með sama markmiði eru líka í drögum að fjölskyldustefnu sem nú er til umsagnar á vef velferðarráðuneytisins. Ef þessar tillögur ganga allar eftir er ég ekki í vafa um að allur stuðningur við börn og fjölskyldur verður meiri og aðgengilegri en nú er og hefur verið á undanförnum árum. Að því gefnu að þetta gangi allt þrautalaust fyrir sig og fari í gegnum þingið og við fáum fjármuni á komandi árum til að byggja aðgerðir á grunni þeirrar stefnumörkunar sem út úr þessu hvoru tveggja kemur þá horfi ég til þess að þjónustan í þessum efnum verði til muna betri á komandi árum en verið hefur.

Virðulegi forseti. Ég vona að ég hafi með þessum orðum mínum svarað að mestu þeim spurningum sem hv. þingmaður bar fram.