145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

greining og meðferð barna með ADHD.

278. mál
[16:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þakkir til hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir það átak sem nú er að fara í gang varðandi greiningar á börnum sem eru mögulega með ADHD, þetta er gríðarlega mikilvægt skref að stíga. Ég vil líka fagna því að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur unnið myndarlega vinnu varðandi mótun geðheilbrigðisstefnu en ég var í hópi fjölda þingmanna sem fluttu þingsályktun um að hún yrði mótuð. Það er með geðheilbrigðismálin eins og svo margt annað, við horfum í peningana sem við látum í málaflokkinn en um leið skiptir þetta gríðarlega miklu máli því öflugt starf á þessu sviði eflir lífsgæði fólks og sparar okkur afar mikla fjármuni á móti þótt þeir komi yfirleitt ekki fram í beinhörðum tölum á sama fjárlagaári.

Ég vildi nefna að ég mun leggja fram fyrirspurn til munnlegs svars varðandi stöðu fullorðinna með ADHD, þannig að þó að hér sé ástæða til að fagna (Forseti hringir.) góðum skrefum þá eigum við eftir að taka mörg og mikilvæg skref á næstu missirum.