145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

greining og meðferð barna með ADHD.

278. mál
[16:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Páll Valur Björnsson) (Bf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra svörin og eins þeim sem tóku þátt í umræðunni. Þetta er mjög gagnleg og góð umræða. Ég hvet ráðherrann eindregið til þess að leggja þessum málaflokki áframhaldandi stuðning með langtímaáætlun í huga. Eins og hefur komið fram í málflutningi þingmanna þá er gríðarlega mikilvægt að vera með langtímaáætlun í þessum efnum. Hann þarf að berjast að mínum dómi með kjafti og klóm fyrir því að inn í þennan málaflokk fáist það fjármagn sem dugar til þess að vinna á allt of löngum biðlistum á sem skemmstum tíma. Hann þarf að kalla að borðinu alla þá góðu sérfræðinga sem við höfum á sviði þessa sjúkdóms — menn greinir á um hvort þetta er sjúkdómur en þetta er geðröskun — og eins þá sem tengjast velferð barna á einn eða annan hátt til að auka þekkinguna, forvarnir og þverfaglega samvinnu á sviðinu svo að langir biðlistar eftir sérhæfðri og dýrri þjónustu heyri sögunni til. Það er lykilatriði.

Það er alltaf spurning hvað er eðlileg bið. Ég held að engin bið eigi að vera í þessum málaflokki eins og kannski mörgum öðrum. Af eigin reynslu við að vinna í skóla og eftir að hafa séð hvernig þetta gengur fyrir sig þá finnst mér ekki mega vera nein bið því að það kostar okkur gríðarlega mikla peninga.

Ég lagði líka fram fyrirspurn í vor til hæstv. innanríkisráðherra um ADHD í sambandi við afplánun fanga. Í ljós kom að um 60% fanga voru með þessa röskun, ADHD og geðraskanir á öðru sviði og jafnvel málþroskaraskanir. Þetta eru ungir einstaklingar sem hafa farið út af brautinni vegna þess að þeir fengu ekki þá aðstoð sem þeir þurftu strax á fyrstu stigum. Það er lykilatriði.

Ég vil líka hvetja hæstv. ráðherra til þess að hlutast til um að í nýrri stefnu í geðheilbrigðisþjónustu verði sérstaklega tekið mið af málefnum sem snerta ADHD. Hvað sem mönnum kann að finnast um þetta, sumir kalla þetta tískufyrirbrigði, ég er ekki einn af þeim vegna þess að ég er sjálfur með ADHD, þá er gríðarlega mikilvægt að við tökum sérstaklega á þessu ásamt öllum öðrum geðsjúkdómum.