145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins.

251. mál
[16:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Einn stærsti myndlistarviðburður í heiminum er Feneyjatvíæringurinn og hafa Íslendingar verið þátttakendur frá árinu 1960. Í ár var listamaðurinn Christoph Büchel fulltrúi Íslands á tvíæringnum. Verk hans fólst í því að hann breytti kirkju sem hafði verið afhelguð fyrir 40 árum í mosku og afhenti hana samfélagi múslima í Feneyjum til notkunar. Það er skemmst frá því að segja að tíu dögum eftir opnunina var ákveðið að loka henni af borgaryfirvöldum í Feneyjum. Í greinum í tímariti myndlistarmanna hefur verið bent á að þetta sé ekki fyrsti viðburðurinn sem sæti slíkri ritskoðun og yfirleitt þegar það hafi átt sér stað á síðustu árum hafi það tengst íslam með einhverjum hætti.

Verk Christophs Büchels vísar í mikil áhrif íslamskrar menningar í Feneyjum og hefur félagspólitískar skírskotanir í fólksflutninga og þá menningarblöndun sem í þeim felast í samtímanum, auk þess að eiga að þjóna sem moska samfélagi múslima í Feneyjum og á Íslandi en þar átti að fara fram daglega menningar- og menntadagskrá fyrir almenning þá sjö mánuði sem tvíæringurinn starfar.

Ég er með nokkrar spurningar til hæstv. menntamálaráðherra og vil taka fram að Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar hefur beitt sér mjög í þessu máli, m.a. höfðað dómsmál á Ítalíu til að fá þessari ákvörðun hnekkt en það tókst ekki. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé sáttur við að framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins 2015 hafi sætt ritskoðun borgaryfirvalda í Feneyjum og sé því ekki opið almenningi. Ég vil einnig spyrja ráðherra með hvaða hætti hann hafi mótmælt ákvörðun borgaryfirvalda í Feneyjum. Að lokum vil ég spyrja hvað hann ætli að gera til þess að yfirstjórn Feneyjatvíæringsins opni framlag Íslands á hátíðinni aftur fyrir almenningi.

Þess má geta að það eru um þrjár vikur eftir af tvíæringnum. Það er í raun algjörlega ólíðandi að Ísland þurfi að sætta sig við þessa niðurstöðu. Við eigum ekki að gera það. Við eigum ekki að sætta okkur við að framlag okkar í svona viðburði sæti ritskoðun. Það dregur líka fram fyrir okkur að þetta er ekki í fyrsta skipti sem slíkt gerist.