145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins.

251. mál
[16:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Hvað varðar fyrstu spurninguna, hvort ráðherrann sé sáttur við að framlagið hafi sætt ritskoðun, þá er svarið einfalt við því: Nei, alls ekki. Ég er þeirrar skoðunar, það er mitt persónulega mat, að þarna hafi mjög merkilegt listaverk verið á ferðinni, áhugavert fyrir margra hluta sakir, og einmitt hlutverk listamanna að takast á við spurningar eins og trúarbrögð og samskipti trúarbragða, trúarbragðadeilur og annað slíkt sem skiptir svo miklu máli í samfélagi okkar í dag. Þannig að ég harma það mjög.

Síðan er spurt með hvaða hætti ég hafi mótmælt ákvörðun borgaryfirvalda í Feneyjum. Þá er það til að taka að ég hef ítrekað á opinberum vettvangi lýst þeirri afstöðu minni að harma beri þessa ákvörðun borgaryfirvalda í Feneyjum. Ég tel að íslenska framlagið til Feneyjatvíæringsins í ár sé listaverk, það er grundvallaratriði hér, sem var þess vert að sem flestir fengju að njóta þess og móta síðan sína afstöðu til. Ég tel það reyndar áfall fyrir Feneyjaborg að hafa staðið svona að þessum málum.

Hitt er nauðsynlegt að taka fram, og kemur reyndar að síðustu spurningu hv. þingmanns, að ekki eru leiðir fyrir menntamálaráðherra til að mótmæla beint við yfirvöld í öðru landi hvað þetta varðar. Menn geta prófað að hugsa það ef Reykjavíkurborg, eða önnur sveitarfélög á Íslandi, gerði einhverjar ráðstafanir með sýningarhald hér þar sem verið væri að sýna verk eftir erlendan listamann og hefði fyrir því dómsúrskurði að bregðast við með þeim hætti — menn sjá það í hendi sér að menntamálaráðherra þess lands sem listamaður kemur frá á erfitt með að fara beint þar inn.

Ég hef aftur á móti stutt þá viðleitni sem Kynningarmiðstöðin hefur haft uppi um að reyna að fá dómsniðurstöðu í þetta mál. Því miður fór það nú eins og það fór. Ég tel að Kynningarmiðstöðin hafi reynt að gera allt sem henni var mögulegt til að reyna að fá þetta verk aftur opnað.

Það er rétt að hafa í huga að réttlæting lokunarinnar var fyrst og fremst sú að borgaryfirvöld í Feneyjum töldu að framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum væri yfirskyn fyrir skipulagða trúarstarfsemi og bænahald múslima. Því var svo að samkvæmt túlkun borgaryfirvalda væri ekki um að ræða listsýningu heldur stað fyrir trúariðkun og því væri sýningunni lokað, enda bæri að sækja um leyfi til að starfrækja slíkan tilbeiðslustað eftir öðrum reglum en gilda um listræna innsetningu.

Ég tel að þessi nálgun standist ekki. Það er ráðgefandi stjórnsýsludómstóll í Feneyjahéraði sem kemst að þessari niðurstöðu og lögð var fram áfrýjun í málinu, beðið um flýtimeðferð, en henni var hafnað. Þegar menn horfa á niðurstöðuna frá ráðgefandi stjórnsýsludómstólum annars vegar og síðan möguleikana til að höfða mál fyrir almennum dómstóli til að fá þeirri ákvörðun hnekkt, þá liggur fyrir að slík málsmeðferð getur tekið mjög langan tíma, það getur liðið allt að því ár þar til slík kæra verður tekin fyrir. Þá er löngu liðinn sá tími sem sýningin stendur yfir.

Ég vil ítreka það, virðulegi forseti, að ég harma mjög þessi málslok og tel að þarna hafi Feneyjaborg gert rangt, það er mín skoðun, með því að loka þessari sýningu, hún hafi átt verulegt erindi, hún sé án nokkurs vafa listaverk. Ég tel líka að þetta sé hnekkir fyrir sýninguna sjálfa að þetta skuli hafa gerst með þessum hætti. Þó ber að undirstrika að það eru ekki sýningarhaldararnir sem taka þessa ákvörðun, heldur er það, eins og lýst hefur verið áður, þessi dómstóll að kröfu borgarinnar.

Ég vona að svona lagað endurtaki sig ekki. Mér finnst þetta vera ígildi ritskoðunar. Mér finnst verið að þrengja að frelsi listamanna til að tjá skoðanir sínar. Það er ekkert einkamál listamannanna. Það er mál okkar allra af því að við þurfum á því að halda að listamenn fáist við krefjandi spurningar sem geta verið óþægilegar í umræðu en eru algjörlega nauðsynlegar. Þess vegna hefði þetta betur verið gert með öðrum hætti að mínu mati, virðulegi forseti.