145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins.

251. mál
[16:53]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar fyrst að þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessu mjög svo mikilvæga og áhugaverða máli. Það gleður mig alveg sérstaklega að heyra hæstv. menningar- og menntamálaráðherra samþykkja það að hérna sé um ritskoðun að ræða. Þetta er náttúrlega mjög mikilvægt mál og endurspeglar hvernig við tökum á móti flóttamönnum frá íslömskum svæðum.

Hins vegar skil ég ekki alveg þá afstöðu hæstv. ráðherra að hann geti ekki sjálfur mótmælt þessari ákvörðun, ég hugsa að hann geti alveg skrifað bréf eins og hver annar. Ég hvet hæstv. ráðherra til að beita sér enn frekar í þessu máli og ef það starf er að vera í samstarfi við hæstv. utanríkisráðherra þá finnst mér að það ætti að vera sjálfsögð og auðveld lausn.