145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Stundum er sagt: Ólíkt höfumst við að, og ég er í því sambandi að hugsa til flokka eins og Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sem báðir héldu landsfund nýlega. Við sitjum oft undir því að talað er um fjórflokkinn, eins og þetta sé bara allt ein og sama stofnunin hér á þingi, svokallaður fjórflokkur. Í því sambandi er áhugavert að bera saman áherslur á samþykktum frá landsfundum þessara tveggja flokka.

Hægri stefnan er hjá Sjálfstæðisflokknum þar sem markaðslögmálin eru látin leika lausum hala. Sjálfstæðisflokkurinn felldi út tillögu um að auðlindaákvæði væri sett inn í stjórnarskrá. Þeir vilja einkavæðingu í heilbrigðis- og menntakerfinu, á fínna máli fjölbreytt rekstrarform. Þeir vilja selja RÚV. LÍN á að færast yfir til fjármálafyrirtækja. Opinberir háskólar eiga að fá að innheimta skólagjöld, Íbúðalánasjóður dragi sig af markaði og einkabankarnir fái að ráða þar för. Þeir tala fyrir stórkostlegum niðurskurði ríkisútgjalda sem bitnar auðvitað á velferðarþjónustunni og að sveitarfélögin útvisti sem flestum verkefnum til einkaaðila þar sem þeir geti nýtt krafta einkaaðila sem best.

Landsfundur Vinstri grænna samþykkti aftur á móti að standa vörð um RÚV. Hann samþykkti að gera róttækar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og að breyta stjórnarskránni og að fá auðlindaákvæði inn í hana á þessu kjörtímabili. Hann samþykkti að auka framlag í innviði samfélagsins og hvatti til þess að stofnaður yrði auðlindasjóður til að arður af sameiginlegum auðlindum rynni inn í hann. Svona mætti áfram telja.

En eitt er gott frá landsfundi sjálfstæðismanna, þ.e. (Forseti hringir.) að samþykkt var að ferlinu við rammaáætlun (Forseti hringir.) skyldi halda, að ekki yrði brugðið (Forseti hringir.) út af því. Það er mjög ánægjulegt. Þeir telja sig vera í framvarðasveit í umhverfismálum. Ég segi bara: Guð láti gott á vita.