145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Völd snúast ekki síst um að stjórna umræðunni í þjóðfélaginu. Þeir sem stjórna henni eru í lykilstöðu þegar kemur að mótun almenningsálitsins. Við búum í litlu þjóðfélagi þar sem fjölmiðlar eru fáir og oft og tíðum máttlausir. Í slíku samfélagi getur verið auðvelt að ná dagskrárvaldi, stjórna umræðunni, ná völdum, (ÖS: Eins og þið á …) telja fólki trú um að hvítt sé svart og allt sé í kaldakoli. Með því að hamra nógu oft á ákveðinni möntru verður til nýr sannleikur. Skoðanir okkar mótast aðallega af fjölmiðlum, því sem við sjáum og heyrum. Við tökum á móti upplýsingum, metum þær og drögum ályktanir. Ef við heyrum nógu oft sömu fullyrðingarnar verða þær oft að nýjum sannleika.

Íslenskir fjölmiðlamenn sinna flestir starfi sínu vel og eins vel og þeir geta. Þeir eru þó jafn misjafnir og þeir eru margir. Halda menn til dæmis að Morgunblaðið eða Fréttablaðið haldi ekki fram ákveðnum pólitískum skoðunum eða gildum? Halda menn virkilega að netmiðlar eins og Kjarninn og Stundin hafi ekki pólitískt „agenda“? Og það er í sjálfu sér ekkert að því. (Gripið fram í.) Fjölmiðlar í einkaeigu hafa fullt leyfi til að hafa pólitískar skoðanir. Það er hins vegar okkar alþingismanna að tryggja að sem flestar skoðanir fái að koma fram þannig að almenningur geti tekið upplýstar ákvarðanir.

Samfélagsmiðlar þar sem allir geta tjáð sig leysa ekki vandann nema að litlu leyti. Þar verða gjarnan til hópar háværra einstaklinga sem reyna að stjórna og hafa sem mest áhrif á þjóðfélagsumræðuna. Raddir hinna verða undir.

Síðasta árið fyrir hrun var búið að skipta flestum helstu fjölmiðlum landsins á milli tveggja valdablokka. Annarri var stjórnað af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og hinni af Björgólfi Guðmundssyni. Viljum við að fjársterkir aðilar stjórni nær allri þjóðfélagsumræðu á Íslandi? Tryggir það að sem flestar skoðanir fái að njóta sín? (Gripið fram í: Nei.)

Hér er minnst á þetta vegna þess að nú er enn einu sinni hafin umræða um framtíð RÚV. Nú er fréttastofa RÚV svo sannarlega ekki hafin yfir gagnrýni, (Forseti hringir.) en kannski er rétt að staldra við og spyrja: Hvernig er upplýstri umræðu best borgið?


Efnisorð er vísa í ræðuna