145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem hér upp vegna fjölmargra tölvupósta sem okkur alþingismönnum hafa borist frá ljósmæðrum sem ekki fengu greidd laun fyrir vinnu sína meðan á verkfallstíma stóð í vor. Laun þeirra í verkfallinu voru reiknuð út í samræmi við dreifibréf frá fjármálaráðuneytinu með ákveðinni reiknireglu. Ljósmæðrafélagið fór með þetta fyrir félagsdóm og í séráliti félagsdóms komast tveir dómarar af fimm að því að þessi reikniregla eigi við um dagvinnu frekar en vaktavinnu. Eftir stendur að ljósmæður fóru í verkfall 7. apríl þar til 13. júní þegar Alþingi setti lög á stóru kvennastéttirnar í heilbrigðiskerfinu. Ljósmæður voru í verkfalli á þessu tímabili þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga. Samkvæmt áðurnefndri reiknireglu var litið svo á að vinna ljósmæðra væri eingöngu fimm daga í viku, mánudaga til föstudaga, en allir vita að eðli þessa starfs er þannig að það er ekki bara fimm daga vikunnar sem börn fæðast hér á landi. Ljósmæður unnu sem sagt sínar vaktir en eftir stendur að af þeim eru dregin 60% af launum þeirra.

Herra forseti. Þetta er arðrán þótt félagsdómur hafi komist að annarri niðurstöðu og ríkið sem vinnuveitandi getur ekki látið slíkt viðgangast. Fjármálaráðherra verður að tryggja að ríkisstarfsmenn fái greidd laun fyrir vinnu sína. Annað er hrópandi óréttlæti, hlýtur að vera lögbrot og mun leiða til þess að þegar upp koma kjaradeilur á ný verður enn erfiðara að leysa þær og enn fleiri munu segja upp.


Efnisorð er vísa í ræðuna