145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar til að gera að umtalsefni stofnun sem hefur verið mikið á milli tannanna á fólki og í fjölmiðlum undanfarið og sem enn og aftur er verið að gera aðför að, en það er Ríkisútvarpið okkar. Ég leyfi mér að draga í efa túlkun hv. þingmanns og varaformanns fjárlaganefndar eins og hún birtist í Morgunblaðinu í morgun í ljósi þess tölvupósts sem hann byggir málflutning sinn á. Ég skil hann með allt öðrum hætti en hv. þingmaður gerir. Ég vona svo sannarlega að umræðan leiði hið rétta í ljós, því að þar er verið að óska eftir staðfestingu á því að fjárhagsupplýsingar og rekstraráætlun sem RÚV var gert að skila inn til fjármálaráðuneytisins vegna skilyrts framlags, sem var mjög umdeilt hér við fjárlagagerðina, að þau plögg séu nægjanleg. Ég skil tölvupóstinn þannig, virðulegi forseti, þar sem kemur fram að gögnin séu í samræmi við þau skilyrði sem fjárlaganefnd setti í nefndaráliti við 2. umr. fjárlaga. Ég leyfi mér að skilja það sem svo að RÚV hafi þá uppfyllt skyldu sína. Ég spyr mig líka, þetta er í mars, að ef þurft hefði að kalla eftir viðbótargögnum, hvort það hafi þá ekki verið gert. Það eru að minnsta kosti engir tölvupóstar því til staðfestingar.

Reksturinn hefur verið hallalaus síðasta árið og mikill viðsnúningur hefur átt sér stað eins og komið hefur fram og að líta á þá skýrslu sem hér var skilað inn sem hinn eina stóra sannleik í málinu er vægast sagt vafasamt að mínu mati.

Ég held líka að þeir sem vinna að lausn þessara mála, þ.e. þessi þrjú ráðuneyti, forsætis-, mennta- og fjármálaráðuneyti, hafi komist að þeirri niðurstöðu að þetta hafi gengið eftir. Þess vegna finnst mér að þeir sem bera eins mikla ábyrgð og formaður og varaformaður fjárlaganefndar þurfi að stíga varlega til jarðar og gæta orða sinna.


Efnisorð er vísa í ræðuna