145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[14:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar í þessu máli, máli nr. 172, sem er frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki og lögum um fjármálafyrirtæki. Nefndarálitið liggur frammi á þskj. 353. Með áliti nefndarinnar leggur nefndin til þó nokkrar breytingar á frumvarpinu og þær liggja frammi á þskj. 354 og vísa ég til þessara skjala í meginatriðum. Ég ætla þó að gera grein fyrir þeim breytingartillögum meiri hlutans sem tilgreindar eru í þskj. 354.

Ég vil líka taka fram í upphafi að það var, a.m.k. að mínu áliti, nokkur samstaða í nefndinni um afgreiðslu málsins og ekki efnislegur ágreiningur með nefndarmönnum þótt fyrir liggi tvö minnihlutaálit á þessari stundu.

Frumvarpið var lagt fram í þeim tilgangi að skapa forsendur fyrir því að þeir lögaðilar sem eru skattskyldir samkvæmt lögum um stöðugleikaskatt, nr. 60/2015, geti lokið þeim áfanga í slitameðferð að hafa fengið nauðasamning staðfestan fyrir dómstólum fyrir næstu áramót kjósi þeir það.

Tilefni framlagningar þessa frumvarps er að á undanförnum vikum hefur komið í ljós að löggjöfin er ekki nægjanlega skilvirk, og að sumu leyti óskýr, til þess að forsendur séu fyrir slitabú föllnu fjármálafyrirtækjanna að ljúka nauðasamningum við kröfuhafa sína með þeim hætti sem ég var að lýsa. Í umfjöllun nefndarinnar kom hins vegar í ljós að frumvarpið eins og það var lagt fram tekur ekki af allan vafa við lagatúlkun í því ljósi og með hliðsjón af þeim tímafresti sem löggjafinn sjálfur setti hér í sumar með lögum um stöðugleikaskatt, nr. 60/2015, þá leggur nefndin til breytingar á frumvarpinu.

Ég vil fyrst víkja að I. kafla frumvarpsins, en kaflinn varðar breytingu á lögum um tekjuskatt. Með 1. gr. leggur frumvarpið til breytingu á tekjuskattslögunum þannig að skuldabréf sem gefin eru út í eigin nafni af svokölluðum slitabúum verði undanþegin afdráttarskatti, líkt og þau skuldabréf sem tiltekin eru í núgildandi 8. tölulið 1. mgr. 3. gr. tekjuskattslaganna. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að skuldabréf útgefin af slitabúum bætist við þau skuldabréf sem þar eru talin. Nefndin taldi hins vegar rétt að árétta að sú undanþága eigi aðeins við um skuldabréfaútgáfu slitabúanna í tengslum við efndir á nauðasamningi slitabúanna.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til breytingu sem verður ný 2. gr. frumvarpsins og varðar bráðabirgðaákvæði LVI í tekjuskattslögum, en það bráðabirgðaákvæði gengur út frá því að við eftirgjöf skulda við gerð nauðasamnings verði hinni eftirgefnu kröfu breytt í hlutafé. Það er í sjálfu sér óeðlilegt að binda skattfrelsi við það form að kröfu sé breytt í hlutafé og í því ljósi leggur nefndin til nokkra breytingu á umræddu bráðabirgðaákvæði tekjuskattslaga þannig að ekki verði lengur kveðið á um að eftirgefinni kröfu þurfi að vera breytt í hlutafé til þess að njóta skattfrelsis. Hins vegar þarf að kveða skýrt á um hvernig fari með eftirgjöfina í skattalegu tilliti. Um þetta voru nokkrar umræður í nefndinni. Með breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar er gert ráð fyrir að eftirgjöf skulda skuli teljast skuldara til skattskyldra tekna þar til allt yfirfæranlegt skattalegt tap hans frá fyrri rekstrarárum og skattalegt tap yfirstandandi árs hefur að fullu verið jafnað, eins og þessu er nánar lýst í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar og ég vísa til þess.

Þá þótti nefndinni nauðsynlegt að í bráðabirgðaákvæði LVI væri einnig kveðið á um meðhöndlun eftirgjafar og umbreytingar í skattskilum kröfuhafanna, þessir kröfuhafar geta verið bæði einstaklingar og fyrirtæki sem ýmist bera ótakmarkaða eða takmarkaða skattskyldu á Íslandi. Nefndin taldi rétt að árétta að núgildandi heimild rekstraraðila til að færa tapaðar kröfur til frádráttar tekjum sínum nær til eftirgjafar krafna við þá nauðasamninga sem hér um ræðir.

Það er líka breyting á nefndu bráðabirgðaákvæði LVI í tekjuskattslögum í tengslum við framlengingu fresta sem ég ætla að koma sérstaklega að síðar, en það fellur undir I. kafla frumvarpsins.

Ég kem þá að II. kafla frumvarpsins sem lýtur að breytingu á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, nr. 155/2010, og hefur nefndin ekki lagt til neina breytingu á þeim kafla.

III. kafli frumvarpsins lýtur að breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, einkum og sér í lagi 3. mgr. 103. gr. a þeirra laga. Þar leggur meiri hluti nefndarinnar til nokkrar breytingar. Það er í fyrsta lagi breyting á a-lið 3. gr. Nefndin tekur undir það sjónarmið að 3. gr. a sé ekki alls kostar í samræmi við þá venju sem hefur myndast á þeim árum sem slitabúin hafa verið starfrækt um skráningu aðilaskipta að kröfum í búin og að það geti verið mjög hamlandi að viðmiðunardagsetning varðandi lokun kröfuskrár, þ.e. lokun að því er lýtur að atkvæðisrétti og úthlutun úr búunum, sé sá dagur þegar nauðasamningur er lagður fram. Þessar ábendingar bárust nefndinni við meðferð málsins. Það var mat manna og nefndin tók undir að það yrði að vera ákveðið svigrúm til staðar varðandi þessi tímamörk. Þess vegna er hér lögð til breyting á 3. gr. a að því leyti.

Hvað varðar b-lið 3. gr. frumvarpsins var fyrir nefndinni lýst áhyggjum af því að lagaleg óvissa væri möguleg um stöðu slitastjórna á tímabilinu frá því að nauðasamningur er staðfestur af dómi og þar til hann hefur verið efndur, vegna þess að umboð slitastjórnar samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sem eru lög um fjármálafyrirtæki, félli niður við lok slitameðferðar, eins og það er orðað þar, skýrt umboð slitastjórnar þurfi að liggja fyrir á þeim tíma frá því að nauðasamningur er staðfestur og þar til hann hefur verið efndur.

Af því tilefni vill meiri hluti nefndarinnar árétta að með lögum nr. 59/2015, sem samþykkt voru á Alþingi í sumar, var engu breytt að þessu leyti. Það er ekki stefnt að því heldur að breyta gildandi rétti með þessu frumvarpi eða þeim breytingartillögum sem meiri hluti nefndarinnar leggur til á frumvarpinu. Að mati meiri hluta nefndarinnar er ekki þörf á sérstakri réttarvernd slitastjórna eftir að nauðasamningur hefur verið staðfestur í þeim tilfellum þegar slitameðferð er lokið með staðfestum nauðasamningi. En meiri hluti nefndarinnar tekur þó undir að ákvæði 4. mgr. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki, og í rauninni 103. gr. a líka að sínu leyti, kunni að vera óskýr og leggur því til breytingu á 8. málslið 3. mgr. 103. gr. a eins og greinir nánar í nefndarálitinu.

Þá kem ég að c-lið 3. gr. Þar leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til breytingu er lýtur að hlutfalli því sem er nauðsynlegt á bak við samþykki nauðasamningsfrumvarps. Nefndin fjallaði ítarlega um þetta atriði. Með vísan til þess að hér er ekki um að ræða nauðasamning sem miðar að því að endurreisa hið skulduga félag aftur leggur nefndin til að hlutfallið miðist við 60% að lágmarki og hámarki 85% þeirra atkvæða sem greidd eru á fundi um samþykki frumvarps. Ég vísa að öðru leyti til umfjöllunar í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar.

Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til frekari breytingar á 3. mgr. 103. gr. a og þá kem ég að nokkrum atriðum sem mundu teljast ný inn í frumvarpið. Nefndin leggur til að 6. málslið 3. mgr. 103. gr. a verði breytt þannig að orðin „eða stofnfé“ bætist við á eftir orðunum „nýir hlutir“ í málsliðnum og að 7. málsliður 3. mgr. 103. gr. a taki breytingum til þess að gera ráð fyrir sjálfseignarstofnunum í slitameðferð. Með lögum nr. 59/2015, sem afgreidd voru hér í sumar, bættist við heimild til að hækka hlutafé og lækka að fullu eldra hlutafé fjármálafyrirtækis í slitameðferð samkvæmt skilyrðum sem kveðið er á um í málsliðnum. Samkvæmt orðanna hljóðan á reglan einungis við um fjármálafyrirtæki í slitameðferð sem áður störfuðu í rekstrarformi hlutafélags. Sömu aðstæður geta hins vegar að sjálfsögðu átt við um sparisjóði sem eru sjálfseignarstofnanir og eru í slitameðferð. Því leggur nefndin til að á eftir 7. málslið komi nýr málsliður sem vísi til fjármálafyrirtækis sem áður starfaði sem sparisjóður. Þessar tvær síðasttöldu breytingar miða að því að grípa þau fyrirtæki sem áður störfuðu sem sparisjóðir eða að minnsta kosti ekki í því rekstrarformi sem hlutafélag.

6. mgr. 103. gr. a kom til umfjöllunar í nefndinni. Þessi málsgrein er sérregla í gjaldþrotarétti sem felst í því að ekki er nauðsynlegt að inna beint af hendi greiðslu til kröfuhafa til efnda á nauðasamningum, heldur er gefinn kostur á því að greiða inn á fjárvörslureikning. Meiri hluti nefndarinnar leggur hér til að málsgreinin taki einnig til atvika þegar ekki er hægt að leggja nauðasamningsgreiðslu inn á fjárvörslureikning. Það kemur til af því að nauðasamningsgreiðslur kunna að vera í formi hlutafjár eða hlutabréfa sem ekki er hægt að leggja inn á fjárvörslureikning. Ég vísa til nefndarálits meiri hluta nefndarinnar um nánari skýringu á þessu.

Að endingu leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að það komi inn nýr kafli í frumvarpið sem kallast þá kafli IV, sem lýtur að breytingu á lögum um stöðugleikaskatt, nr. 60/2015, og þar komi inn ný grein sem yrði 5. gr. frumvarpsins. Nefndin telur rétt í ljósi þess að nú er óvíst hvort slitastjórnum takist að ljúka slitameðferð fyrir áramót, þ.e. með staðfestingu héraðsdóms fyrir áramót, að veita þeim aðilum sem falla undir skattskyldusvið laga um stöðugleikaskatt frest til 15. mars 2016 til þess að ganga þannig frá málum að ekki komi til skattskyldu kjósi þeir að ljúka slitum með nauðasamningi.

Áfram er áskilið að nauðasamningur þarf að hafa verið samþykktur af kröfuhöfum og lagður fram í héraðsdóm fyrir áramót til þess að til greina komi að skattskylda samkvæmt lögum um stöðugleikaskatt falli niður. Um þetta atriði hafði nefndin samráð við fjármálaráðuneytið og í tengslum við þetta telur nefndin rétt að breyta bráðabirgðaákvæði LVI í tekjuskattslögum, eins og ég kom að í upphafi máls míns, til þess að gæta samræmis.

Það liggur í hlutarins eðli að 4. gr. frumvarpsins, sem tekur auðvitað breytingu í samræmi við þær breytingar sem hafa verið gerðar, færist aftur, þetta er gildistökuákvæði og færist sem sagt aftast. Meiri hluti nefndarinnar leggur ekki til neina breytingu á a- og b-liðum, en hvað c-liðinn varðar leggur meiri hlutinn til að lögin nái til þeirra fjármálafyrirtækja í slitameðferð sem ekki hafa haldið atkvæðisfund um frumvarp að nauðasamningi.

Ég hef þar með rakið breytingarnar sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til að þingið samþykki við þetta frumvarp og vil að lokum þakka öllum nefndarmönnum fyrir málefnalega umræðu og gott samstarf.

Undir þetta nefndarálit rita sú sem hér stendur og hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Willum Þór Þórsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Vilhjálmur Bjarnason og Guðlaugur Þór Þórðarson.