145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[14:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að svara þessari spurningu þyrfti auðvitað að liggja fyrir afdráttarlaust svar við þeirri spurningu hvort stöðugleikaskatturinn sem slíkur hefði verið nægjanlegur til að grípa þann vanda sem við blasti og blasir enn við þegar erlendir kröfuhafar fara hér út með eigur sínar.

Hv. þm. Árni Páll Árnason spyr hvort sá afsláttur sem verið er að veita sé eðlilegur í þessu ljósi. Ég held ekki að rétt sé að leggja málið upp þannig að verið sé að gefa einhvern afslátt frá stöðugleikaskattinum. Það lá fyrir á síðasta þingi að boðið yrði upp á að fara tvær leiðir; að greiða þennan skatt eða fara út með gerð nauðasamninga og fara þá út með samþykki Seðlabankans og þeirra sem hafa gleggstu yfirsýnina yfir efnahagsmál þjóðarinnar. Þegar menn ætla að bera þá tvo kosti saman verða þeir að horfast í augu við það að með greiðslu stöðugleikaskatts hefði ekki endilega verið komið endanlega í veg fyrir að vandræði sköpuðust síðar. Eignir erlendu kröfuhafanna hefðu eftir sem áður verið hér á landi, mögulega vaxið og orðið að nýjum vanda, öðrum vanda seinna meir. Ég tel því ekki hægt að bera þetta svona saman. Þetta eru í rauninni eðlisólíkar leiðir og kröfuhöfum í sjálfsvald sett hvor leiðin er farin. En ég tel að sú leið (Forseti hringir.) sem mér sýnist stefna í að verði farin verði hagfelld fyrir þjóðina til framtíðar litið.