145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[14:43]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp sem tengist einhverjum mikilvægustu efnahagslegu aðgerðum sem nokkru sinni hefur verið ráðist í á lýðveldistímanum. Ég verð að segja að mér finnst með ólíkindum að við skulum vera að ræða mál af þessum toga án þess að hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. fjármálaráðherra séu viðstaddir. (Gripið fram í: Hann er að koma.) Gott og vel. Það er mjög gott að hæstv. forsætisráðherra sé kominn vegna þess að þetta er í eina skiptið sem við eigum færi á að ræða þetta mál við hæstv. forsætisráðherra.

Hv. þm. Sigríður Andersen flutti aldeilis prýðilega framsögu fyrir því áliti sem hún mælti fyrir áðan. Hún taldi að ekki hefðu verið neinir efnislegir annmarkar á því að ná samstöðu um málið og vænti þess að hægt væri að afgreiða það með samþykki allra þingmanna. Þá ætla ég að upplýsa það að ég mun aldrei samþykkja mál sem ég skil ekki til fulls, (Gripið fram í.) það eru þættir í frumvarpinu sem ég skil ekki enn þá. Þeir voru ekki skýrðir í álitinu og þeir eru ekki skýrðir heldur í framsögunni, og það varðar það að hér er verið að leggja til, að því er virðist til að sníða íslenskan rétt að einhverjum sérstökum þörfum kröfuhafanna, að felldur verði niður svokallaður afdráttarskattur. Til hvers er verið að gera það? Það liggur fyrir að við höfum verið á síðustu árum að gera hundruð tvísköttunarsamninga sem fela það í sér að engin sérstök þörf er á því. Af hverju er þá verið að gera það? Það er bara einn hópur manna sem græðir á því og það eru þeir sem eru með fé sitt fólgið á einhverjum skattsniðgöngueyjum, skattaparadísum eins og Cayman-eyjum eða Tortóla. Hvers vegna á að vera að nota þetta ferðalag til að koma í gegn einhverju smyglgóssi handa Tortólaliðinu? Ég spyr hv. framsögumann: Hvers vegna er nauðsynlegt að grípa til þeirra ráðstafana í frumvarpinu?