145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[14:52]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, það er nú bara sú sem hér stendur sem skrifar undir það álit. Ég vil fyrst taka það fram að vinnan í nefndinni hefur verið með ágætum, eins og fram kom í máli framsögumanns nefndarálits meiri hlutans, og þar hefur verið reynt að kafa af vandvirkni ofan í þá flóknu stöðu sem við er að eiga og birtist í þessu frumvarpi.

Ég tek undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um að það er mjög mikilvægt að hv. þingmenn skilji það sem hér býr að baki. Ég ætla aðeins að taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Sigríður Andersen sleppti honum hér á undan mér þar sem hún velti því upp hvort einhverjir þingmenn teldu stöðugleikaskattinn betri leið en stöðugleikaframlögin. Það kom mjög skýrt fram í vor þegar við ræddum bæði þessi mál, stöðugleikaskattinn og stöðugleikaframlögin. Báðar þessar leiðir voru samþykktar hér og það kom til að mynda fram í nefndaráliti minni hlutans sem undir rituðu hv. þingmenn Steingrímur J. Sigfússon og Árni Páll Árnason að þeir sæju ákveðna galla við leið stöðugleikaframlags sem ekki ættu við í leið stöðugleikaskattsins. Það voru líka ákveðnir kostir og yfir það var farið ágætlega í nefndaráliti þeirra, en kostirnir við skattlagninguna eru auðvitað fyrst og fremst þeir að hún er mjög gagnsæ leið. Hún er mjög einföld, hún er mjög hrein og bein. Það sögðu einnig hv. þingmenn sem tóku þátt í umræðum í vor, eins og ég rifjaði upp fyrir þessa umræðu, þeir voru allir sammála um að það væri gagnsæ leið sem skildist vel.

Vissulega hafa einhverjir haft áhyggjur af því hvort stöðugleikaskattur mundi standast lög, en ég vil líka segja að á minni stuttu og ánægjulegu veru í hv. efnahags- og viðskiptanefnd hef ég ekki heyrt nokkurn mann halda því fram að það sé ástæða til að efast um lögmæti stöðugleikaskattsins. Það hefur komið fram hjá ýmsum gestum fyrir nefndinni að þeir sjái engan sérstakan flöt á því að efast um lögmætið í ljósi þess hvernig að því máli er búið.

Þess vegna vil ég taka fram, ég geri það líka í nefndaráliti mínu, og benda á að í tilviki stöðugleikaskattsleiðarinnar að fulltrúi þingflokks okkar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, stóð að nefndaráliti með meiri hlutanum. Málið var stutt af okkar hálfu án fyrirvara, enda er það mjög gagnsæ leið, hún er hreinleg og skilur ekki eftir neinar flækjur, ef við getum sagt sem svo.

Í nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, sem ég vitnaði til áðan, voru reifaðir mismunandi kostir og gallar við þessar ólíku leiðir. Vissulega hefur leið nauðasamninga ýmsa kosti, þ.e. málin leysast á grundvelli samkomulags um samning og greiðslu stöðugleikaframlags sem tiltekinn meiri hluti óskar eftir. Fram kom í umræðum varðandi þessa leið að það fer vel á því að bjóða upp á ákveðinn valkost við stöðugleikaskattinn. Þannig ræddum við það hér, að það gæfi kröfuhöfum tvær leiðir til þess að komast út úr höftum.

Hins vegar kom líka fram að megingallinn við leið nauðasamninganna væri óvissan, bæði hvað varðaði hina endanlegu fjárhagslegu útkomu ríkisins, stöðuna, hvort stöðugleikaframlögin væru nægjanleg til þess að hlutleysa eignirnar til að ná markmiðum aðgerðanna. Og hver eru markmiðin? Jú, það var líka rætt hér í vor og aftur núna. Ég efast ekkert um að markmið okkar er að höftunum verði lyft án þess að það verði til þess að skerða lífskjör almennings. Það er auðvitað markmið okkar og á að vera markmið okkar allra. Það hlýtur að vera aðalmarkmiðið og það er það sem okkur þingmönnum ber að leggja mat á núna þegar við förum yfir þessi mál. Vissulega erum við hér fyrst og fremst að ræða frumvarp sem lýtur að umgjörð stöðugleikaframlaganna, en eðlilega setjum við það í samhengi við það sem kynnt hefur verið núna af hálfu stjórnvalda. Það er mikilvægt að allir hv. þingmenn reyni að setja sig sem best inn í það sem þar er verið að kynna, því að ég verð að viðurkenna með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að það er ekki endilega sett upp á eins gagnsæjan hátt og óska hefði mátt eftir. Kannski er ekki hægt að setja þetta fram á gagnsæjan hátt, ég veit það ekki, en það liggur vissulega fyrir að það er ekki beinlínis auðvelt að ráða í þær kynningar sem stjórnvöld báru hér á borð í síðustu viku.

Það lá líka fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar í vor að stöðugleikaframlögin mundu byggja á stöðugleikaskilyrðum sem væru ófrávíkjanleg — ófrávíkjanleg — og þau yrðu að uppfylla hin sömu skilyrði og stöðugleikaskattur. Nú virðist birtast ákveðinn munur á þessum leiðum. Þetta eru ekki eins leiðir, það liggur alveg fyrir. Það er ekki hægt að setja nákvæmlega sömu mælistiku á það þegar við tölum um stöðugleikaskattinn annars vegar og stöðugleikaframlagaleiðina hins vegar, en það sem er til dæmis eðlilegt að spyrja um, og það er eitt af því sem fram kemur í nefndaráliti mínu, er að í þessum heila pakka er gert ráð fyrir að bankarnir skili sér á nafnvirði. Ekki hefur verið farin sú leið, virðist vera, að fá óháðan aðila til að meta virði bankanna. Menn tala um virði bankanna á ólíkan hátt í almennri opinberri umræðu. Bankarnir eru hins vegar settir inn á nafnvirði í kynningunni. Þar er ýmislegt tekið með í dæmið.

Ég geri athugasemdir við það þegar þessi framlög eru kynnt, og aðallega undir tölunni 856, sem er haganlega fyrir komið rétt yfir umfangi þess vanda sem áður hafði verið kynntur upp á 815 milljarða, að þegar við köfum svo ofan í það hvað er þar á bak við eru það m.a. aðgerðir sem eru liðnar, t.d. viðskiptin milli nýja og gamla Landsbankans. Það eru líka beinlínis eignir ríkisins, þ.e. lánin sem ríkissjóður lánaði nýju bönkunum, sem ávallt lá fyrir að yrðu endurgreidd, þau eru tekin inn í þessa púllíu. Þarna eru settar inn endurheimtur af eignum sem mjög erfitt er að leggja mat á og við sem gegnum hér hlutverki hv. þingmanna höfum í raun ekki yfirsýn yfir allar þær kröfur sem liggja þar að baki.

Við höfum fengið nefnd ýmis dæmi um þær kröfur sem ætlað er að setja inn í sérstakt eignarhaldsfélag undir Seðlabankanum. En það liggur líka fyrir að þar er ákveðin áhætta til staðar um það hvernig nákvæmlega þessar eignir munu skila sér. Þær geta skilað sér vel eða ekki. Það er auðvitað hluti af vandanum við þessa leið að við horfum hér ekki á einfalda krónutölu sem við getum sagt nákvæmlega til um að skili sér með tilteknum hætti á tilteknum tíma, heldur tökum við hér ákveðna áhættu og við horfum inn í framtíðina, við erum að skjóta hluta málsins inn í framtíðina, kannski til góðs, en kannski ekki, og það finnst mér óheppilegt. Ég gagnrýni það í nefndaráliti mínu að mjög lítið samráð hefur verið haft um framkvæmd þessa máls. Það þurfti að hafa verulega mikið fyrir því í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að fá beinlínis fulltrúa fjármálaráðuneytisins og fulltrúa Seðlabankans á fund til að fara yfir framkvæmdina á málinu. Það er ekki vegna þess að hv. formaður nefndarinnar, Frosti Sigurjónsson, hafi ekki brugðist strax við beiðni um það, heldur hefur það tekið tíma að fá upplýsingar frá þeim aðilum sem fara með framkvæmd málsins, þ.e. frá fjármálaráðuneytinu og Seðlabankanum. Þar setti nefndin fram ákveðnar óskir um upplýsingar til dæmis til þess að átta sig betur á greiðslujöfnuði inn í framtíðina. Óskað var eftir ólíkum sviðsmyndum á því hvernig þessar aðgerðir mundu skila sér miðað við ólíkar sviðsmyndir inn í framtíðina. Ég verð að segja að ég hefði kosið að fá miklu meira samráð um þessi mál, annaðhvort við efnahags- og viðskiptanefnd, eða við samráðsnefnd um losun hafta sem hefur verið starfandi, hefur aldrei verið sett af. Hún var svo kölluð saman hér í síðustu viku í raun bara til að segja okkur að málið mundi bresta á daginn eftir. Ekki er því hægt að tala um samráð og heldur vart hægt að tala um upplýsingagjöf sem gæti nýst þannig að þingmenn væru vel komnir inn í málið.

Síðan er brugðist við því og boðið upp á kynningar sama dag og málið er kynnt á blaðamannafundi. Það er gert með því að ýmsar tölur eru settar fram sem síðan hefur legið fyrir okkur þingmönnum að kafa ofan í og reyna að skilja. Það liggur líka fyrir, og hefur komið fram hjá fulltrúum Indefence-hópsins sem hefur legið yfir þessu máli, að þær tölur eru settar fram án þess að það sé sérstaklega auðvelt að ráða í hvernig þær eru samsettar og sjá hver hin raunverulegu stöðugleikaframlög eru. Tölurnar þar rokkuðu til og frá daginn sem framlögin voru kynnt, hvort þau voru 370 eða allt upp í 590 milljarðar, en það lítur nú út fyrir að þau séu í raun og veru 370 milljarðar og síðan koma aðrar aðgerðir ofan á það. Af hverju dreg ég þetta fram? Jú, herra forseti, af því að það skiptir miklu máli að við sem hér erum skiljum samsetninguna á þessu og séum þess fullviss að málið leysist með sem bestum hætti fyrir land og þjóð, að við séum fullviss um að við séum ekki að ógna lífskjörum almennings, að við séum fullviss um að þetta sé nægjanlegt. Það á ekki að nægja okkur að Seðlabankinn sé búinn að gefa frá sér greinargerð sína, sem var kynnt okkur í efnahags- og viðskiptanefnd á sama degi og málið var kynnt á blaðamannafundi, heldur skiptir máli að við skiljum hvað felst í þeirri greinargerð.

Ég vil líka segja að hluti af vandanum er sá að eins og fram kemur í frumvarpinu er verið að gera talsverðar breytingar. Það er ekki langt síðan við gengum frá og samþykktum frumvörpin um stöðugleikaskattinn og stöðugleikaframlögin. Á þeim skamma tíma sem síðan er liðinn hefur það greinilega verið mat þeirra sem átt hafa í því lifandi samtali, sem hæstv. fjármálaráðherra kallaði svo, við kröfuhafa að breyta hafi þurft þessum lögum þannig að hér fáum við fyrst inn frumvarp með verulegum breytingum á lögunum og síðan hefur það líka komið á daginn í vinnu nefndarinnar. Í raun má segja að breytingarnar sem meiri hluti nefndarinnar leggur hér til séu mjög umfangsmiklar. Þær fá ekki eðlilegar þrjár umræður eins og rétt væri, heldur fá þær í raun mjög stutta umræðu, þær miklu breytingar sem gerðar eru á frumvarpinu á milli umræðna.

Það er líka ýmislegt sem tengist málinu, ekki beint þessu frumvarpi, heldur málinu sem heild. Það eru ýmsar breytingar sem orðið hafa á málinu frá því að það var kynnt í júní. Ég nefni það til dæmis að tímaröð málsins er orðin önnur en áætlað var. Þá var talað um útboð á aflandskrónum í haust. Þá var talað um að afnámsáætlun eða áætlun um afnám hafta á almenning mundi líka liggja fyrir í haust. En það liggur fyrir núna að það útboð fer ekki fram fyrr en eftir áramót. Það liggur engin áætlun ný fyrir um afnám hafta á almenning, en búið er að segja að það muni gerast von bráðar að þessu loknu, þannig að tímaröðin er ekki sú sem við ræddum í vor.

Ég vil líka nefna að það liggur heldur ekki fyrir áætlun varðandi almenning, ég nefni almenning sérstaklega, en ég vil líka nefna lífeyrissjóðina, því að við höfum heldur enga sýn á það hvernig nákvæmlega lífeyrissjóðirnir eiga að geta uppfyllt fjárfestingarþörf sína með þá fjármuni sem þeir liggja hér með inni í höftum og hvenær við munum sjá einhverja raunverulega áætlun um að það gangi eftir.

Af því að afdráttarskatturinn var nefndur finnst mér heldur ekki góður bragur á því að gera þessar breytingar undir pressu þess að ná nauðasamningum við kröfuhafa — og þær breytingar voru vissulega ræddar talsvert í nefndinni — því að þarna er verið að falla frá skattareglum, væntanlega að kröfu þessara stóru greiðslumiðlunarfyrirtækja sem við þekkjum og heita Euroclear, Clearstream. Að þeirra kröfu er fallist á breytingar á íslenskri skattalöggjöf til að hægt sé að höndla með þau, til að hægt sé að láta þau ganga kaupum og sölum, væntanlega að kröfu kröfuhafa. Mér finnst það erfitt í ljósi þess að ríkisskattstjóri var með ákveðnar athugasemdir. Vissulega er það rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni og framsögumanni málsins að það er ýmislegt sem vegur þar á móti, eins og tvísköttunarsamningar og annað. En þetta eru breytingar sem við gerum í mikilli tímapressu eins og annað sem tengist þessu máli. Þarna eru ákveðnar prinsippbreytingar sem gera það að verkum, í ljósi þess litla samráðs sem haft hefur verið um málið, að það hefur verið á köflum eins og að kreista tár úr steini, að kreista út upplýsingar um það hvað býr á bak við tölurnar og glærurnar sem voru kynntar almenningi í síðustu viku. Það hefur verið erfitt að fá raunveruleg gögn, raunverulegar upplýsingar, þær eru smám saman að tínast inn í umræðuna.

Þá hlýt ég að segja það hér að auðvitað hljóta þessir samningar fyrst og fremst að vera á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og ég hefði talið betra að við hefðum haft meira samráð þverpólitískt. Ég hef oft áður rætt það í þessum sal að ég líti svo á að það fari best á því að við reynum að vinna svona stórt hagsmunamál saman. Ég hefði kosið að það hefði verið gert með þeim hætti í þessu máli. Mér finnst leitt að sjá hvernig haldið hefur verið á málinu því að þetta er mjög mikið hagsmunamál fyrir allan almenning. Langbest hefði farið á því að við hefðum öll setið við sama borð, öll haft sömu upplýsingar og það var til vettvangur fyrir það, vettvangur sem bundinn var trúnaði, sem var samráðsnefnd um losun hafta. Það hefði verið hægur vandi að nýta þá nefnd og enginn átti að vera minni maður að því. Mér finnast þetta ekki góð vinnubrögð.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég vil fyrst og fremst segja að það sem um ræðir hér er auðvitað þetta frumvarp. Ég geri ákveðnar athugasemdir við það, sérstaklega varðandi afdráttarskattinn. Búið er að gera breytingar og meiri hluti nefndarinnar leggur til ákveðnar breytingar sem eru til bóta varðandi ýmis tæknileg atriði. En stóra málið er að þetta mál er sett fram til þess að búa í haginn fyrir nauðasamninga sem þegar er búið að kvitta upp á af hálfu hæstv. fjármálaráðherra. Það finnst mér hafa gerst án nægrar umræðu í hópi þingmanna og líka án umræðu við almenning í landinu. Það eru hans hagsmunir sem um ræðir hér. Um það snýst höfuðgagnrýni mín í þessu nefndaráliti. Ég tel að margt hafi ræst sem fram kom í áliti minni hlutans. Óvissan er vissulega til staðar. Ógagnsæið er vissulega til staðar. Það er áhyggjuefni, finnst mér.