145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:10]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það væri áhugavert að skoða það samkomulag sem nú liggur fyrir, ekki aðeins út frá því hvað íslenska ríkið fær í sinn hlut, heldur einnig hvernig kröfuhafarnir koma út úr því samkomulagi. Það væri áhugavert að skoða ranghverfuna á glærunum sem við fengum að sjá og gott ef við hefðum fengið tíma til þess, af því að hv. þingmaður nefnir hér stöðu þeirra.

Hvað varðar afdráttarskattinn þá gerði ég mér grein fyrir þeirri afstöðu minni að ég áttaði mig alveg á því sem verið væri að gera hér; það liggja fyrir beiðnir frá alþjóðlegum greiðslumiðlunarfyrirtækjum, þau segja að þau vilji ekki höndla með bréfin nema að þau séu undanþegin þessum skatti. Og hér er verið að leggja til að koma til móts við þær kröfur greiðslumiðlunarfyrirtækjanna. Ég er mjög efins um það. Mér finnst enginn bragur á því að gera það í fyrsta lagi undir tímapressu og í öðru lagi að við séum að sérsníða skattumhverfið að þessum fyrirtækjum án þess að hafa fullkannað hvaða aðrar leiðir (Forseti hringir.) standa til boða í þeim málum.