145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þá höndla þau bara ekkert með bréfin. Það er ekki mál okkar Íslendinga. Við gerðum ákveðið samkomulag og það frumvarp sem við ræðum hér er staðfesting á því að ríkisstjórnin fór samningaleiðina. Það kom ákveðin niðurstaða. Henni var tekið. Menn voru misjafnlega sáttir við það. En þá þýðir ekkert að koma til baka og segja: Nei, við viljum meira. Íslenska þingið þarf einhvern tímann að segja: Hingað og ekki lengra. Ég tek því þannig að hv. þingmaður muni þá vera sammála mér um þetta mál í atkvæðagreiðslunni því að a.m.k. eftir þá umræðu sem hér hefur farið fram í dag ætla ég ekki að greiða þeim parti atkvæði mitt.

Ég verð líka að segja að mér finnst ekki að það sé okkar hlutverk að gefa kröfuhöfum lengri frest til þess að geta notfært sér þennan 450 milljarða skattafslátt, sér í lagi ekki eftir þær mikilvægu upplýsingar sem hv. þingmaður færir úr umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar, því að það merkilegasta sem hún sagði í ræðu sinni var það að þar hefðu margir komið og sagt að það væri engin ástæða til þess að efast um lögmæti (Forseti hringir.) stöðugleikaskattsins. Þá spyr ég: Ef hann er í lagi og lögmæti hans ekki dregið í efa, hví í ósköpunum notfærum við okkur ekki frekar (Forseti hringir.) þá leið sem hefur enga áhættu í för með sér fyrir íslenska ríkið?