145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að spinna aðeins áfram þennan sama þráð. Hér er verið að sleppa erlendum kröfuhöfum úr höftum með um það bil 400 milljarða af gjaldeyri úr landi á einhverju árabili, einkanlega með vísun til þess að það eyði lagalegri óvissu sem hv. þingmaður upplýsir þó að hafi ekki verið talin vera mikil í nefndinni.

Þá vil ég spyrja hvort það sé ekki líka þannig að í lögunum um stöðugleikaskattinn hafi verið búið svo um að þeirri lagalegu óvissu verði eytt mjög fljótt, það sé flýtimeðferð fyrir dómstólum, það sé einvörðungu hægt að reka slík mál fyrir íslenskum dómstólum og þetta sé íslensk lögsaga og íslensk efnahagslögsaga og íslenskir dómstólar muni hafa síðasta orðið í málinu, og hvort sá stutti tími sem það tekur að fá niðurstöðu í málið gefi ekki tilefni til að hafa a.m.k. efasemdir um að ástæða sé til að veita erlendum kröfuhöfum (Forseti hringir.) svona mikinn afslátt og hleypa þeim svona fljótt á undan öðrum úr höftum.