145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vera mjög heiðarleg. Hún vildi sem sagt ekki að stjórnarandstaðan fengi aðgang að samráðsnefnd um losun hafta. Hún vildi ekki frekari upplýsingagjöf. Hún vitnaði til einhvers leka sem engin leið er að rekja í raun og veru, en hv. þingmaður hefur haldið hér ýmsu fram í þessari pontu sem er algerlega órökstutt. Mér finnst gott að það liggi á borðinu. Ég veit að samflokksmenn hennar eru ekki endilega sammála henni um þetta.

Hér liggur afstaða hv. þingmanns fyrir. Hún mælir gegn þverpólitísku samstarfi um mikilvæg mál sem varða hag almennings og heldur sig svo bara í fortíðinni, eins og hv. þingmaður hefur kosið að gera allt þetta kjörtímabil, enda er það gömul saga og ný að það er oft auðveldara að dvelja í liðnum tíma en að horfast í augu við kröfur nútímans.